143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður velti því aðeins fyrir sér hvað byggi að baki þessari framgöngu hér og mér fundust það áhugaverðar hugleiðingar. Það má auðvitað spyrja sig: Sátt við hverja er meiningin að ná með þessum vinnubrögðum? Sátt við hverja? Maður veltir stundum fyrir sér hvort þetta sé orðið skylt umræðu við sjávarútvegsumræðuna, að allir tali um sáttina, hina miklu sátt, en hún virðist eiga að vera við tiltekna aðila en ekki aðra.

Af því hv. þingmaður spurði spurningarinnar, hvort jafnvel væri verið að ganga einhverra sérhagsmuna veltir maður því fyrir sér og tengir til dæmis við þá staðreynd að hér átti loksins að lögfesta varúðarregluna. Getur verið að þar sé sáttin, að sáttin eigi að felast í því að það verði ekki gert? Ég geri ráð fyrir því að við getum giskað á hverjir væru ósköp sáttir við að varúðarreglan kæmist ekkert inn í lög á Íslandi þó seint sé. Treystir hv. þm. Helgi Hjörvar sér til að vera aðeins beinskeyttari í umfjöllun um þessi efni, svo að við tölum nú ekki tæpitungu mikla, meira en þarf?

Auðvitað er staðan grafalvarleg. Hvað vorum við að ræða hér fyrir ári eða innan við það? Við vorum að ræða um hvort við fengjum inn í stjórnarskrána þessar mikilvægustu grundvallarreglur umhverfismálanna, meginprinsipp og grundvallarreglur umhverfisréttarins. Þá voru menn að gera sér vonir um það. En hvað er hér á dagskrá? Nei, það er nú ekki að þetta sé á leiðinni inn í stjórnarskrána. Nei, að þetta fari út úr lögum eða komist ekki inn í lög.

Ég hefði áhuga á að heyra mat hv. þingmanns á þessu út frá þeim hugleiðingum sem hann var hér með um þennan bakgrunn málsins: Hvað gengur mönnum til? Hvað er þarna á ferðinni?