143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður deilum áhuga á stjórnmálum líðandi stundar og sögulegum víddum í þeim efnum. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvernig hann sér þetta undarlega afturköllunarfrumvarp í ljósi sögu Framsóknarflokksins. Einu sinni var Framsóknarflokkur flokkur Eysteins Jónssonar og flokkur Steingríms Hermannssonar, flokkur sem hafði græna tóna, einhverja græna tóna (HöskÞ: Hefur.) sem komu fram reglulega. (Gripið fram í: Hefur.) En tilfinning þeirrar sem hér stendur er að flokkurinn sé að þróast í átt til öfgafullra hægri flokka, meira svona með teboðsívafi þar sem er oftrú á stórar, einfaldar lausnir og skammsýni. (Gripið fram í.) Þetta finnst mér vera eitthvað sem hefur komið mörgum stjórnmálarýnandanum á óvart, að Framsóknarflokkurinn skuli vera að þróast svona gagnrýnislaust (Gripið fram í.) í þá átt (Forseti hringir.) í ljósi sögunnar. Ég velti því fyrir mér hvort þessi tilfinning bærist (Forseti hringir.) jafnframt í brjósti hv. þingmanns.