143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var að vona að umræðan hér yrði málefnaleg og mundi kannski snúast um efnisatriði frumvarpsins en þegar þetta er komið út í vangaveltur um Framsóknarflokkinn og hvað hugsanlega einhverjum þingmönnum finnist eða hvaða stefnu hann ætli að taka verð ég bara að segja eitt: Eigum við ekki að ræða hér umhverfisvernd á aðeins hærra plani? Ég get alveg fullvissað ykkur um að þingmönnum Framsóknarflokksins er mikið í mun að standa vörð um umhverfið hvar og hvenær sem er.

Ég ætla hins vegar að víkja að ræðu hv. þingmanns. Hann byrjað á nokkrum samsæriskenningum sem mér fannst ekkert sérstaklega málefnalegar en svo heyrði ég andsvar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og áttaði mig á því að hv. þm. Helgi Hjörvar hefði kannski þrátt fyrir allt ekki verið svo ósanngjarn. Þó sagðist hann telja að ráðherra hefði haft sex mánuði til að koma fram með nýtt frumvarp og að hann hefði nýtt þann tíma illa. Ég spyr þá á móti: Hafði Samfylkingin ekki heil sex ár, síðustu tvö kjörtímabil, til að koma með ný lög? Kannski hefði verið hægt að vinna þau í meiri og betri sátt.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að við þurfum að skoða heildarmyndina og að við þurfum að vinna vel. Ég er sannfærður um að hægt sé að gera það í sátt, en það er spurning hvort þingmenn stjórnarandstöðunnar, a.m.k. þingmenn Vinstri grænna, vilji sátt. Þeir voru ekki á þeim buxunum síðasta vor. Við skulum þó sjá.

Enn er talað um afturhvarf til ársins 1999 eins og verið sé að fella einhver lög úr gildi. Ég minni hv. þingheim á að lögin sem (Forseti hringir.) nú stendur til að fella úr gildi hafa ekki enn tekið gildi. Þetta er ekki afturhvarf til eins eða neins. Það er bara verið (Forseti hringir.) að láta þau lög sem gilda í dag halda áfram að gilda.