143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég veit ekki alveg hvernig ætti að vinna þetta tiltekna frumvarp frekar vegna þess að það er svo, — nú vantar mig aftur íslenska orðið fyrir „brutal“ — frumvarpið tekur einfaldlega út gömlu lögin. Það sem ég hefði viljað sjá hérna er nefndarvinna um hvað það er í nýju lögunum, nr. 60/2013, sem við getum haldið þrátt fyrir að hafa áfram lögin frá 1999. Það hefði verið einhvers konar sáttaumleitun. Það hefði verið einhvers konar framþróun. Ég hef sérstaklega nefnt 8. gr. og líka 11. gr. sem eru í stefnu okkar pírata og ég sé ekki hvers vegna ekki mátti hafa þær með. Það fyrsta sem hefði mátt spyrja að er hverju ríkisstjórnin getur lifað með. Hún hlýtur að geta lifað með 8. gr. sem fjallar um að byggja ákvarðanatöku á vísindalegum grunni. Það getur ekki verið að einhver vilji byggja á óvísindalegum grunni. Það getur ekki verið.

Því velti ég fyrir mér hvort við hefðum ekki getað farið í gegnum hverja grein og sagt: Allt í lagi, við getum lifað með þessu, atvinnulífið fer ekki í klessu með þessu o.s.frv. Það hefði þá alla vega verið hægt að hafa það með. Hver veit, kannski hefði verið góð hugmynd að setja það í nefnd og spyrja: Hvað af þessu virkar ekki?

Ég velti fyrir mér hvað gæti verið verra en þetta tilfelli. Ég á mjög erfitt með að ímynda mér hvernig væri hægt að vinna þetta verr en einfaldlega svona, með því að afnema gömlu lögin og láta ekkert koma í staðinn, hunsa alla fyrri vinnu, að því er virðist, leiðrétti mig hver sem betur getur.

Ég hefði viljað sjá eitthvað standa eftir. Það eru vissulega hlutir þarna sem geta ekki verið umdeildir, sérstaklega 8. gr. en líka ábyrgðarákvæðið um kostnað. Ef fólk hefði farið að ræða frumvarpið í nefnd, sem verður væntanlega gert, á ég bágt með að sjá hvernig fólk hefði getað verið með einhver rök gegn þessu.