143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli tek ég heils hugar undir að þingið eigi að nýta þau tól sem því eru góðfúslega gefin til að móta frumvörp og lagasetningu. Ég hef þó áhyggjur af öllu sem við gerum hér í þinginu vegna þess að mér finnst meiri hlutinn alltaf ráða förinni, sama hvað gerist. Þess vegna er í þingsályktunartillögunni sem hv. þm Pétur H. Blöndal lagði fram ásamt mér og öðrum skorað á ríkisstjórnina, það virðist ekkert annað hægt en að skora á hana sem er einn af sorglegri vanköntum á kerfinu sem við búum við og vonandi er hægt að gera eitthvað til að breyta því í framtíðinni. En þangað til það atriði verður meira í deiglunni og fólk er farið að taka vandamálið alvarlega er algjörlega sjálfsagt að þingið, og allar háttvirtar nefndir þess, nýti það frumkvæði sem það hefur. Á móti kemur þó að þegar allt kemur til alls ræður meiri hlutinn öllum nefndum, alla vega langflestum þeirra, og í sjálfu sér er lítið við því að gera. En ég tek heils hugar undir að háttvirtum nefndum og þinginu beri að nota tólin sem til eru til að hafa áhrif.