143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru sannarlega mörg orð, bæði nafnorð og lýsingarorð, sem koma í hugann þegar rætt er um það frumvarp sem hér liggur fyrir, sem er um að nema úr gildi hvorki meira né minna en náttúruverndarlög sem sett voru hér síðastliðið vor, lög nr. 60/2013. Ég ætla samt að neita mér um að nota nokkurt þeirra en ég get fullvissað viðstadda og forseta um að ekkert þeirra er jákvætt.

Öðru máli hefði gegnt ef komið hefði tillaga um breytingar á einhverjum greinum laganna sem ganga eiga í gildi 1. apríl 2014, eins og rætt hefur verið hér á undan af öðrum ræðumönnum, að einhverju væri frestað eða eitthvað tekið til sérstakrar athugunar, því að það er auðvitað allt annað mál að endurskoða lögin og fara yfir þau en að nema þau úr gildi. Vissulega verður því ekki neitað að það var ágreiningur á síðasta þingi, það er nýr meiri hluti og hæstv. ráðherra vill bara sópa öllu út af borðinu. En vonandi eru nú einhverjir og t.d. eins og hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sem er sanngjarn maður og réttsýnn, sem vilja kannski líta yfir málið og athuga hvort ekki megi nota lögin eins og þau eru núna.

Lögin eru vissulega til þó að þau séu ekki gengin í gildi. Þau eru þarna, við vitum hvernig þetta ætti að líta út og ég get sannfært menn um að fólk úr stjórnarandstöðu væri mjög tilbúið til þess að athuga hvort hægt væri að ná einhverri samstöðu um málið. Kannski er það ekki hægt, en að ætla að leyfa sér það snemma vetrar og í byrjun kjörtímabils að byrja á því að henda slíkum lagabálki út í sjó finnst mér ámælisvert. Ég verð að segja að ég held að það sé í fáum málaflokkum eins og einmitt þessum, í umhverfismálum og náttúruvernd, þar sem viðhorf og gildismat fólks hefur breyst jafn mikið á jafn stuttum tíma, þ.e. þeim tíma sem liðinn er síðan lögin voru sett 1999. Þess vegna er þetta svo mikið afturhvarf vegna þess að með þeim lögum sem fella á úr gildi eru náttúruverndarlögin færð til nútímans og nútíminn, sem sagt 2013, er allt öðruvísi en hann var 1999 og meira í þessum efnum en svo mörgum öðrum.

Sagt er að skortur hafi verið á samráði. Auðvitað er það ekki rétt, það er einfaldlega ósatt, virðulegi forseti. Hér var settur á fót starfshópur árið 2009, held ég að hafi verið. Hann skilaði hvítbók, þá setur fagfólk, kunnáttufólk niður þau atriði sem þurfa að koma til skoðunar. Það er vandaðasti undirbúningurinn að lagasetningu sem til er að búa til hvítbók. Því miður er ekki nóg gert af því hér á landi.

Síðan er frumvarp lagt fyrir þingið. Það vita það náttúrlega allir sem fylgdust með þessu máli á síðasta kjörtímabili að það var unnið mjög mikið í nefndinni. Mjög margar umsagnir komu inn og hver einasta umsögn var grandskoðuð. Allir gátu tjáð sig sem það vildu, talað var við þá og reynt að koma til móts við hin ýmsu sjónarmið.

Á hinn bóginn var það þannig, virðulegur forseti, og ég hef það fyrir satt og það kemur mér ekki á óvart vegna þess að það er svo sem hegðan sem ég hef orðið vitni að í öðrum nefndum þingsins, að stjórnarandstaðan var ekki til viðræðu, hún vildi ekki viðræður. Hún vildi ekki leggja neitt til, hún þagði bara. Það er ekki hægt að semja við fólk sem þegir, eða til hvers ætlast menn? Ætlast menn til þess að þeir sem leggja fram frumvarp segi: Heyrðu, nei, á ég ekki að breyta þessu svona af því að þú vilt það endilega?

Nei, þeir sem vilja breyta, þeir sem vilja að textinn sé öðruvísi verða að segja það. Þá hefjast samningar og þá verður málamiðlun. En ef menn þegja, vilja ekki taka þátt í starfinu er ekkert til að hlusta á af því að þeir segja ekki neitt, það er þess vegna.

Sagt er að frumvarpið hafi mætt andstöðu ólíkra hópa innan samfélagsins, (Gripið fram í.) allir á móti. Það er heldur ekki rétt, virðulegi forseti. Staðreyndin er að náttúruverndarsamtök, ýmis útivistarsamtök og ferðafélög, ferðaþjónustan og svo fagfólk og fræðifólk í náttúruverndar- og umhverfisgeiranum fögnuðu þessu frumvarpi og voru mjög jákvæð. En vissulega voru ýmsir aðrir ekki jafn ánægðir, þar má t.d. nefna útivistarmenn sem ferðast mest um á vélknúnum farartækjum, þeir voru misánægðir. Sumir voru ánægðir, aðrir ekki. Bændur og landeigendur voru ekki allir ánægðir, þeir sem stunda skógrækt voru ekki ánægðir. Hvað varðar þá sem stunda skógrækt skulum við hins vegar athuga að í þessum lögum er verið að innleiða samninga sem við höfum skrifað undir og margt af því sem þar er er nú þegar í lögunum frá 1999.

Síðan voru Samtök atvinnulífsins og sveitarfélög líka á móti ýmsu í lögunum en gagnrýni þeirra hópa var af nokkuð ólíkum toga. Var reynt að koma til móts við mörg þeirra sjónarmiða en auðvitað ekki öll. En nú er þá tækifærið fyrir þá sem eru svona óskaplega óánægðir með lögin, ég trúi varla að þeir svona óskaplega óánægðir með hvert einasta atriði, en þau atriði sem þeim eru á móti skapi, að fara aftur í málið og athuga hvort við náum málamiðlun. Þá fyndist mér það í anda þeirrar ríkisstjórnar sem boðar sátt og samlyndi frá morgni til kvölds að þeir gengju á undan í þeim efnum.

Sagt er að frumvarpið einkennist of mikið af boðum og bönnum. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að þegar eru settar reglur fjalla þær um hvað má og hvað má ekki. Það er náttúrlega svolítill útúrsnúningur, þykir mér, og ómálefnalegt, svo ég noti nú orð sem er mjög í tísku hér í þingsal, að kalla reglur boð og bönn. Mér finnst það mjög ómálefnalegt, virðulegi forseti.

Þegar er talað um þessi boð og bönn er oft vikið að utanvegaakstri. En við vitum það líka að þessar reglur eru settar til að reyna að koma í veg fyrir þau náttúruspjöll sem utanvegaakstur getur valdið. Við vitum líka að margt hefur verið reynt í fjölda ára til að koma í veg fyrir það og sett upp skilti og talað við þennan og hinn og ýmislegt verið gert en það hefur ekki tekist að koma í veg fyrir náttúruspjöll vegna þessa. Þess vegna er lagt upp í þá vegferð að búinn verði til kortagrunnur svo menn viti hvar þeir mega keyra og hvar þeir mega ekki keyra.

Síðan á að setja þá vinnu af stað en gerð er sú málamiðlun að sá kafli um einmitt þennan þátt falli úr gildi 1. janúar 2018, held ég að sé. Núna er það ein af röksemdunum fyrir því að fella allan málaflokkinn úr gildi að endurskoða eigi þennan kafla fyrir 2018. Þá segi ég: Forsætisráðherra var hér um daginn og flutti frumvarp um reglubyrði — ég var að reyna alltaf að finna út hvaða orð ég vildi nota, ég tel reglubyrði mjög gildishlaðið orð. Í frumvarpinu stendur að þau lög, ef þau verða samþykkt nú þegar, eigi að gilda í fjögur ár. Þá spyr ég: Er ekki óþarfi að setja þessi lög fyrst þau eiga bara að gilda í fjögur ár, ef það er notað sem röksemd fyrir því að endurskoða eigi þessi lög eða að nýr kafli eigi að taka við 2018, er það þá ekki bara óþarfi? Það eru ekki rök, virðulegi forseti, það er það sem ég er að reyna að segja hér.

Samtök íslenskra sveitarfélaga eru óánægð. Rétt áðan var hér vakin athygli á öllum þeim kostnaði sem sveitarfélögin eiga að standa undir í þessu sambandi. Það eru nú ekki þær upphæðir að það þurfi að setja þær fyrir sig, en vissulega það eru önnur atriði sem Samband íslenskra sveitarfélaga setur fyrir sig. Þar er m.a. um að ræða það sem má fresta, t.d. varðandi sérstaka vernd og annað þar sem setja má á bann á framkvæmdir í alllangan tíma. Við getum velt því fyrir okkur hvort það sé nákvæmlega það sem sveitarfélögin eru á móti, að þá sé skipulagsvaldið tekið alveg af sveitarfélögunum, en mér finnst sjálfsagt að ræða það nánar og athuga hvort hægt sé að ná þar einhverri málamiðlun og sátt í þeim efnum.

Mig langar loks að tala um það sem stendur í greinargerðinni með þessu mikla frumvarpi sem er á þá leið að það hefði verið annar kostur en að fella lögin, með leyfi forseta:

„Annar kostur en sá að fella lög nr. 60/2013 úr gildi væri að fresta gildistöku laganna, t.d. um eitt ár, og leggja fram í kjölfarið frumvarp til nauðsynlegra breytinga á lögunum áður en þau taka gildi.“

Svo vil ég vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, með leyfi forseta:

„Sá kostur mundi hins vegar hafa í för með sér óvissu um framtíðarfyrirkomulag heildarlöggjafar á sviði náttúruverndar á meðan veigamikil endurskoðun færi fram á lögum nr. 60/2013.“

Hvað þýðir það að nema þessi lög úr gildi og hverfa aftur til ársins 1999? Er það ekki meiri óvissa en að vita að einhverjir einstakir kaflar gangi ekki í gildi strax eða að einhverjum greinum sé breytt? Það er varla hægt að færa fram svona rök, virðulegi forseti.

Ég vil segja aftur að ég tel að fara eigi þannig með málið að það fari inn í nefndina, og ég bind vonir við hv. formann nefndarinnar sem er, eins og ég sagði áður, sanngjarn og réttsýnn maður. Ég trúi því að hann muni vilja reyna að skilja það eftir sig sem formaður nefndarinnar að hann hafi komið á sátt í þessu mjög svo veigamikla máli sem náttúruvernd Íslands er, sem við viljum öll, held ég, hina mestu og bestu þó að okkur greini á um einhver atriði.