143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mikið hefur verið talað um að ná þurfi meiri sátt og meira samráð þurfi. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því, af því að nú hefur komið fram að fjöldi gesta kom fyrir nefndina við umfjöllun málsins og fjöldi umsagnaraðila lögðu inn umsagnir, hvort hann telji að kalla þurfi allan þann hóp aftur fyrir nefndina til að fara í gegnum þetta viðamikla mál og hvort hann telji að það muni skila þeim árangri að menn detti akkúrat niður á þann jafnvægispunkt að finna þá miklu sátt, sem ég tel vissulega að þurfi að vera. En maður spyr, sátt við hvern ef menn ná sátt við einhverja aðila í þessu máli sem hafa gagnrýnt þetta mál? Eru menn ekki að kalla á ósætti annarra aðila?

Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvernig hann sjái fyrir sér að vinnan verði í framhaldinu og hvort hann sjái líka fyrir sér að næstu stjórnvöld sem kæmu til með að komast til valda eftir fjögur ár mundu fara sömu vegferð og hæstv. ráðherra er að gera núna, að rífa þessi lög upp með rótum eftir áralanga vinnu og aðkomu fjölda aðila, til að ná sátt við kannski einhverja aðra en nú er verið að tala um?