143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef velt þessu með sáttina svolítið fyrir mér líka. Við erum náttúrlega í pólitík og okkur greinir á um ýmsa hluti. Það er út af fyrir sig eðli þess að vera í pólitískum flokkum að sumir eru meira félagshyggjufólk og aðrir eitthvað annað og sumir eru kannski meira náttúruverndarfólk en aðrir þannig að alltaf mun okkur greina á í einhverjum atriðum. Við náum aldrei hinni endanlegu stóru sátt.

Á hinn bóginn held ég að við getum nálgast hvert annað. Ef við ætlum að vera svo stórstíg, ef ég má orða það svo, þegar nýr stjórnarmeirihluti kemur og tekur stóran og merkan lagabálk eins og þennan, sem er búið að vinna mikið að, og hendir honum bara, eyðir honum, þá held ég að ósættið sem verður eftir það verði meira en ef við getum náð að fara í einstakar greinar. Þá hlýtur það að standa upp á ráðherrann að segja hvaða greinar eru svona erfiðar. Við vitum það. Ég veit til dæmis að greinin um hina sérstöku vernd er mörgum erfið og kannski er hægt að ná einhverju samkomulagi þar sem þeir sem eru hæstánægðir með greinina væru ekki alveg jafn ánægðir en hinir ekki jafn óánægðir. Það er náttúrlega líka svolítil kúnst að ná hinu góða jafnvægi. Auðvitað verður það aldrei þannig að við föllumst öll í faðma, en ég held að það sé alveg (Forseti hringir.) til þess vinnandi að reyna í þessu máli að koma því áfram án þess að henda því út í sjó.