143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir yfirferðina. Þingmaðurinn staldraði nokkuð við umræðuna um utanvegaakstur. Ég hef verið, virðulegi forseti, þeirrar skoðunar og haft þá tilfinningu lengi, hafandi gegnt embætti umhverfisráðherra, að það væri ekki bara samstaða um það í samfélaginu heldur verulega brýn þörf á því að ná utan um það vandamál sem utanvegaakstur er. Sumir hafa gengið svo langt að segja að það sé engin ógn eins alvarleg gagnvart íslenskri náttúru og nákvæmlega utanvegaakstur.

Með þessu frumvarpi hæstv. ráðherra er verið að taka til baka öll ákvæði, hvert einasta ákvæði fyrra frumvarps, og m.a. þetta verkefni Landmælinga Íslands, þetta litla verkefni en óendanlega mikilvæga, sem er að vinna að gerð kortagrunns um vegi og vegslóða. Meðan það er ekki gert höfum við ekki tækið. Það stóð til samkvæmt frumvarpinu, eftir samskipti við ýmsa aðila, að bíða með það að negla niður hvað við ætluðum að gera við slóðayfirlitin við kortlagninguna.

Telur hv. þingmaður að ráðherrann sé í raun og veru að reyna að liðka fyrir um utanvegaakstur? Getur það verið markmið umhverfisráðherra á einhverjum tímum að þjóna harðlínumönnum sem vilja ekki sætta sig við undir nokkrum kringumstæðum neinar takmarkanir á utanvegaakstri? Það væri algjörlega með ólíkindum ef svo væri. Þetta litla einfalda og skýra atriði sem snýst um að kortleggja vegslóða á hálendinu er eina leiðin til að nálgast það viðfangsefni og um það eru allir sammála.

Telur hv. þingmaður að það geti verið að ráðherra umhverfismála gangi svo langt gegn hagsmunum náttúruverndar að hann sé að gæta hagsmuna (Forseti hringir.) harðlínumanna í þessum efnum?