143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hv. þingmanni hjartanlega sammála um að utanvegaakstur er náttúruspjöll og við höfum reynt að taka á honum í mörg ár en ekkert hefur gengið. Eftir því sem mér er sagt skiptast menn þar í hópa. Margir menn og konur sem nota vélknúin ökutæki úti á landi og á hálendinu eru mjög ánægðir með þessa grein. Aðrir eru það ekki, að því mér er sagt.

Ég trúi því samt ekki að hæstv. umhverfisráðherra sé að vernda hagsmuni þess fólks, ég trúi því ekki. Ég held miklu frekar að þetta sé byggt á einhverjum misskilningi, að ein af ástæðunum fyrir því að lögin eigi ekki að ganga í gildi sé að þessi þáttur eigi hvort sem er að falla úr gildi árið 2018. Það sem er náttúrlega einmitt verið að gera með því að láta þennan kafla verða fyrst að lögum en falla úr gildi 2018 er að þá yrði til kortagrunnur, fólk sæi hvernig þetta liti út, bannið gildir. Kannski verður kortagrunnurinn þannig og kannski verður þetta allt þannig að það þarf ekki að setja svo ofsalega strangar reglur árið 2018 af því við höfum tæki til að nota. Það er það sem ég held. Þess vegna held ég að það sé bara einhver misskilningur að það séu rök fyrir því að fella lögin úr gildi að þetta ákvæði eigi hvort sem er að falla úr gildi árið 2018.