143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var nú gjarnan þannig ef ég kom heim til ömmu og afa með skeifu yfir einhverju sem einhver hafði sagt við mig úti á leikvelli að amma sagði alltaf: Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Þannig að ég fékk svona notalegan titring í barnshjartað undir þeirri skýringu. Auðvitað er best ef um misskilning er að ræða.

Þá langar mig til að nefna þá nálgun við hv. þingmann, af því að hún hefur aðeins verið nefnd í umræðunni, hvort ekki sé hugsanlegt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki þetta vonda afturkallsfrumvarp til kostanna. Hún horfi sérstaklega til þeirra kafla og greina í þeim lögum sem ganga í gildi 1. apríl að öðru óbreyttu og þar með talið áform um að kortleggja vegslóða á hálendinu þannig að við séum a.m.k. nestuð af þeim gögnum sem þarf til að stemma stigu við þessum mikla vanda.