143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tel að það mál sem hér er til umfjöllunar feli í sér mikla afturför og sé í raun og veru mikill óþarfi. Ég held að það sjónarmið sem fram kom í máli hæstv. ráðherra í andsvörum þegar hann hafði mælt fyrir frumvarpinu, að hlusta á öll sjónarmið og koma til móts við þau, eins og hann sagði ef ég man rétt, sé góðra gjalda vert en það er auðvitað ekki hægt að koma til móts við öll sjónarmið. Einhvers staðar verður pólitíkin að koma inn í málið og stefna sem menn fylgja og marka. Ég held að verið sé að byrja á öfugum enda á þessu máli. Auðvitað eru misjafnar skoðanir á lögum um náttúruvernd og hefði það verið mun auðveldara viðfangs og eðlilegra fyrir málið í heild sinni ef hæstv. ráðherra hefði komið inn í þingið með frumvarp til laga þar sem hann hefði talið upp þær breytingar sem hann vildi gera á þessum gildandi náttúruverndarlögum.

Þá hefði verið hægt að taka efnislega afstöðu til þeirra breytinga og við værum ekki að fjalla um þessi mál með jafn loðnum og loftkenndum hætti og við gerum núna þar sem í raun er verið að taka heilan lagabálk sem gríðarleg vinna liggur á bak við og fella hann úr gildi án þess að nefna það sem koma á í staðinn eða eitthvert ferli sem koma muni í staðinn fyrir lögin.

Í athugasemdum við frumvarp hæstv. ráðherra um tilefni og nauðsyn þessarar lagasetningar segir að frumvarpið hafi meðal annars einkennst of mikið af boðum og bönnum. Ef maður skoðar lög um náttúruvernd þá er það auðvitað þannig. Mér finnst þetta nú svolítið eins og að segja að það sé of mikið af boðum og bönnum í almennum hegningarlögum ef menn ætla að gagnrýna þau. Þegar við erum með lagasetningu sem fjallar um umgengni við náttúru Íslands sem er okkur gríðarlega dýrmæt þá hlýtur auðvitað að vera óhjákvæmilegt að í því felist nokkur boð og nokkur bönn.

Þær athugasemdir sem taldar eru upp í greinargerðinni með frumvarpinu og sem vitnað er í í umsögnum um frumvarpið lutu meðal annars að því að verkaskipting milli ríkisstofnana innbyrðis væri óljós. Mig langar að staldra aðeins við þá fullyrðingu og skoða hvað það getur verið sem er óljóst við verkaskiptingu stofnana. Ef ég gríp niður í þann kafla sem fjallar um stjórn náttúruverndarmála í 13. gr. um yfirstjórn ráðherra og hlutverk stofnana er það alveg skýrt að það er ráðherra sem fer með yfirstjórn náttúruverndarmála og það er Umhverfisstofnun sem „fer m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, veitir leyfi og umsagnir“ — ég ætla nú ekki að klára að lesa þessar greinar til enda. Síðan er talið hér upp hvað Náttúrufræðistofnun Íslands annast sérstaklega og í síðustu málsgreininni segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra kveður í reglugerð nánar á um verkefni Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar á meðal fræðsluhlutverk þeirra.“

Ef verkaskiptingin er óljós þarna á milli er ráðherra auðvitað í lófa lagið samkvæmt lögunum að lagfæra það.

Í frumvarpi ráðherra segir líka að verkaskiptingin á milli ríkisins og sveitarfélaga sé óljós. Mig langar að staldra aðeins við þann kafla vegna þess að lögin gera ráð fyrir því að á vegum hvers sveitarfélags starfi þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd og það er sveitarstjórn sem ákveður fjölda nefndarmanna.

„Náttúruverndarnefndir skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Skulu þær stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu“ og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líklegt er að hafi áhrif á náttúruna og gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Umhverfisstofnunar.

Sagt er að verkaskiptingin sé óljós en í þessari grein segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hlutverk náttúruverndarnefnda og tengsl þeirra við náttúrustofur samkvæmt lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992.“

Í þeim kafla sem ráðherrann nefnir eru honum tryggð þau úrræði að skera úr um það sem honum þykir ef til vill óljóst og koma til móts við þær umsagnir sem honum finnst að ekki hafi verið komið til móts við. Hvað þetta tvennt varðar er fullkominn óþarfi að draga til baka löggjöf sem tekið hefur mörg ár að smíða.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra segir líka að orðskýringar séu óljósar. Ég spurði reyndar hæstv. ráðherra út í það áðan en ég náði ekki alveg utan um svar hans varðandi hvað honum fyndist vanta upp á í orðskýringum. Ég minnist þess að í nefndinni var miklum tíma eytt í að laga þær til og fjalla um þær og þær sættu miklum breytingum af hálfu nefndarinnar einmitt til þess að koma til móts við þær umsagnir sem okkur höfðu borist á síðasta kjörtímabili.

Síðan segir enn fremur í greinargerð með frumvarpinu að miklar athugasemdir hafi verið gerðar við IV. kafla frumvarpsins sem fjallar um almannarétt, útivist og umgengni og bent á að ákvæði kaflans gæti haft í för með sér skerðingu á umráðarétti landeigenda. Mig langar aðeins til að staldra við þennan mikilvæga rétt almennings og reyna að koma auga á hvar umráðaréttur landeigenda er skertur.

Hér segir í 17. gr., með leyfi forseta:

„Rétti þessum fylgir skylda til að ganga vel um náttúru landsins“, þ.e. réttinum um för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ég ætla að stikla á stóru. Hér segir enn fremur:

„Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.“ Varla felur þetta það í sér að gengið sé á rétt landeigenda.

„Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða stiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Forðast skal að valda öðrum óþægindum og truflun með hávaða. Skylt er að gæta fyllsta hreinlætis og skilja ekki eftir sorp eða úrgang á áningarstað eða tjaldstað.

Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði. Forðast skal að eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt.

Almenningi er frjáls för um vegi og vegslóða þar sem akstur er heimill samkvæmt kortagrunni […] með þeim takmörkunum og skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þessum og í vegalögum, og reglugerðum settum eftir þeim.“

Mér finnst þetta í sjálfu sér vera mjög skýrt og get ekki séð að verið sé að ganga á rétt og umráðarétt landeigenda.

Síðan kemur að umferð gangandi manna og þar er skilgreint hvenær mönnum er heimilt að fara um landið. Það er tiltölulega skýrt og þarf í sjálfu sér ekki að fjalla nánar um það. Ekki sé ég að þar sé verið að ganga á rétt landeigenda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Þó er í sérstökum tilvikum heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og stiga för manna og dvöl á afgirtu óræktuðu eignarlandi í byggð ef það er nauðsynlegt vegna nýtingar þess eða verndunar.“

Hér er verið að tryggja rétt landeigenda. Þegar kemur að umferð hjólreiðamanna þá er rétturinn tryggður og enn hnykkt á því að ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um umferð hjólreiðamanna. Það sama má segja um umferð ríðandi manna:

„Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.“

Sama gildir um umferð um vötn, samanber 21. gr., þannig að þau ákvæði sem fjalla um almannarétt og hæstv. ráðherra finnst mögulega á einhvern hátt gölluð eru líka þannig úr garði gert að honum er í lófa lagið að bregðast við því og breyta því.

Varðandi síðan utanvegaaksturinn eru settar heimildir inn í lögin sem eru svipaðar þeim heimildum sem eru til staðar í núgildandi lögum um heimildir ráðherra til þess að takmarka eða banna akstur á jöklum og snæviþakinni jörð þar sem hætta er á náttúruspjöllum eða óþægindum fyrir aðila sem þar eru á ferð. Það er efnislega nákvæmlega það sama og stendur í gildandi lögum. Hins vegar er hér skerpt mjög á því hvar heimilt er að aka á vélknúnum ökutækjum, sem er auðvitað það sem okkur skortir.

Það sem hér er á ferðinni og birtist í þessu frumvarpi almennt séð er það sem vantar í íslenskri stjórnsýslu, íslensku lagaumhverfi og íslenskri pólitík, þ.e. virðing fyrir ferlum, að menn setji sér skýrar reglur þannig að til dæmis sé alveg klárt hvar má aka og hvar má ekki aka. Menn ættu því ekki að þurfa að velta mikið vöngum yfir því hvort þeir hafi verið að aka á vegi, vegslóða eða utan vegar. Það er það sem verið er að reyna að gera með þessari lagasetningu.

Í lögunum er líka gert ráð fyrir því að ráðherra hafi mikla aðkomu að því regluumhverfi og að kortagrunninum.

Í 32. gr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal í reglugerð kveða á um gerð kortagrunns þar sem merktir skulu vegir og vegslóðar sem heimilt er að aka vélknúnum ökutækjum um.“

Það er auðvitað það sem allir vita að þarf að gerast. Af því að ég kemst ekki í fleiri efnisatriði frumvarpsins þarf ég klárlega að koma hér aftur upp vegna þess að af nógu er að taka, en ég vil aðeins að fjalla um það í restina sem sagt er í frumvarpinu, að það sé horft til þess mikla kostnaðar sem gert var ráð fyrir að lögin hefðu í för með sér bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Í mati á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Áður en frumvarpið varð að lögum færði Alþingi ákvæði um náttúruverndarnefndir til þess horfs sem það var samkvæmt gildandi lögum um náttúruvernd […] og er því væntur kostnaðarauki umræddra ákvæða ekki lengur fyrir hendi.“

Það sem eftir stendur eru 105 milljónir króna sem mér finnast ekki vera háir fjármunir til þess að verja í aukna náttúruvernd á Íslandi. Það er svona um það bil helmingurinn af aðstoðarmannaflota ríkisstjórnarinnar á ársgrunni, ef ég reikna aðeins ríflega og geri þeim upp aðeins meiri tekjur en þeir hafa. Það er samt sem áður ekki hægt að rökstyðja það eða halda því fram að þetta sé mikill kostnaður.

Ég kemst því miður ekki lengra í þessari ræðu en mig langar að láta þetta verða það fyrsta sem ég segi í þessu máli.