143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek undir þau sjónarmið sem hann kom fram með í svari sínu.

Að lokum langar mig að nefna eitt atriði sem tengist því sem hv. þingmaður ræddi hér um kostnað vegna laganna. Vissulega er það svo að því fylgir ákveðinn kostnaður að efla vöktun, sem var hluti af þessum kostnaði sem var ræddur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytis við frumvarpið þegar það kom fram á sínum tíma og einnig ákveðinn kostnaður við ýmsa innleiðingarþætti. Nú langar mig að spyrja, því að það vill svo til að hv. þingmaður er mikill ferðalangur og ferðast mikið um hálendið og um landið: Er það mat hv. þingmanns að þörf sé á hreinlega auknum fjárveitingum til landvörslu um land allt en líka til meiri vöktunar á náttúrufari landsins, í ljósi aukins álags ferðamanna og þeirra breytinga sem hafa orðið almennt hér í náttúrufari á undanförnum árum?