143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir hans yfirferð á nokkrum þeim atriðum sem í greinargerð frumvarpsins er talað um að séu óljós eða einhver vandamál í sambandi við gildandi lög. Ég tek undir þá kröfu að hæstv. ráðherra geri efnislega grein fyrir því hverju í væntanlegri löggjöf hann telur áfátt. Það er ekki hægt að tala svona í almennum orðum, að þetta lykti of mikið af boðum og bönnum — hvað segir það okkur? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvar er farið offari? Hvar fara menn offari í því að leggja hömlur á hlutina og hvaða boð og bönn eru það?

Ég og hv. þm. Róbert Marshall áttum hér ágæta umræðu fyrir tveimur eða þremur dögum, eða svo, um tillögu um uppbyggingu vega á hálendinu, og ræddum þar ástandið. Þrátt fyrir að ýmis sjónarmið kæmu fram um slíka vegauppbyggingu þá leyfi ég mér að túlka þá umræðu þannig að allir hafi verið sammála um að hlutirnir væru ekki í nógu góðu horfi. Það væri allt of tilviljunarkennt hvar slóðir væru að myndast sem síðan væri farið að líta á sem vegi og leyfilegar leiðir til aksturs.

Þá vaknar spurningin, út frá þeim dæmum sem hv. þm. Róbert Marshall var með í þeirri umræðu, hvaða skilaboð verða það ef hæstv. ráðherra hefur vilja sinn fram, ef það verður slegið af það sem menn hafa þó bundið vonir við að væri að komast af stað varðandi það að ná tökum á þessum máli? Hvaða skilaboð erum við að senda inn í þennan málaflokk ef lögin í heild sinni verða ekki látin taka gildi, ef engin vinna er að hefjast við kortagrunn eða afmörkun vega og vegslóða, hvar má þá keyra og hvar ekki, ef engin varúðarregla kemur í lög, hvaða skilaboð erum við að senda? Hvað mundi hv. þingmaður, út frá sinni þekkingu sem (Forseti hringir.) leiðsögumaður farandi mikið um hálendið — hvernig mundi hann meta ástandið?