143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið og get ekki annað en lýst mig verulega sammála. Ég ætla að nefna nýtt dæmi um það hvernig hlutirnir geta verið að þróast, þar sem eru hreindýraveiðarnar. Nú hefur það gerst að hreindýrin hafa færst norðar á norðausturhálendinu þar sem eru mjög stór víðerni og hafa verið að mestu leyti án vegaslóða fyrir utan kannski slóðir sem liggja upp að gangnakofunum í heiðunum upp af Þistilfirði, Langanesströnd, Vopnafirði og jafnvel Öxarfirði.

Þetta er þurrt land en mjög viðkvæmt og það sýnir sig að freistingin, bara til að keyra af augum í átt að hreindýrahjörðunum, er mikil. Og menn slá inn slóðirnar, það er rétt, og næsti veiðimannahópur fær upplýsingar frá þeim á undan: Já, við gátum bara farið þarna norðan við hornið á þessu felli og austan við hitt. Og þannig gerist þetta. Þetta er að gerast svona. Það er tilviljunarkennd slóðamyndun á hálendinu — ef hæstv. ráðherra legði nú kannski líka eyrun við. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að ýta þessum veruleika til hliðar, slá hann út af borðinu með einhverju blaðri um að eitthvað lykti af boðum eða bönnum.