143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér sögulega flatneskjulegt mál, að ég segi nú ekki hallærislegt mál sem er þeirrar gerðar að hægt er að lesa frumvarpið upp á nokkrum sekúndum. Það snýst um að fella lög um náttúruvernd, nr. 60/2013, brott. Hæstv. ráðherra boðaði það með fréttatilkynningu seint á kvöldi og orðaði það þannig að ráðherrann hefði ákveðið að afturkalla lögin. Það var mikill bragur að því en það var ekki í fyrsta skiptið og væntanlega ekki í það síðasta sem hæstv. umhverfisráðherra þarf að fara yfir það sem hann sagði um daginn og leiðrétta það eða jafnvel setja það í samhengi fyrir þá sem gera við það athugasemdir. Það er orðið nokkuð mikið þrástef í málflutningi hæstv. ráðherra. En þó að hæstv. ráðherra hafi boðað afturkall sem hann sjálfur hafði ákveðið þá gerist það eftir einhverja umræðu, sjálfsagt einhverja leiðsögn að hæstv. ráðherra leggur hér fram frumvarp til laga til meðferðar í þinginu, því að það er nefnilega þingræði í þessu landi. Ráðherrar ákveða ekki að afturkalla lög þó að þeim sé mikið niðri fyrir eins og hæstv. umhverfisráðherra eða þeim ráðherra sem fer með málaflokk umhverfismála, sem lýsir því kannski betur.

Hér er um að ræða frumvarp um brottfall laga sem er heildarendurskoðun laga um náttúruvernd á Íslandi. Hér hafa nokkrir fjallað um það verklag og þá vinnu sem var undanfari þess frumvarps sem fram var lagt og þó að ekki sé nú staður eða stund fyrir leikmuni hér í þingsal þá held ég að það sé ágætt fyrir þá sem hér eru og sjá til að lyfta hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands sem er í raun alger nýbreytni í íslenskri löggjöf, þ.e. að fyrir liggi ítarleg kortlagning um allt lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi, áður en lengra var haldið. Sú vinna hófst strax eftir kosningar 2009, af því að það tekur nefnilega tíma að vinna svona stórt verkefni eins og þarna var undir, og að þeirri vinnu kom gríðarlegur fjöldi fólks. Og af því að okkur Íslendingum þykir vænt um landið okkar og af því að við höfum mörg hver ekki bara skoðanir og tilfinningar gagnvart landinu okkar heldur líka hagsmuni af umgengni við það þá greinir fólk á um gríðarlega mörg atriði.

Sennilega er það svo að það einkennir löggjöf um náttúruvernd að tekist er á um hana. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að fólk skuli hafa skoðun á lögum um náttúruvernd. Í aðdragandanum að frumvarpi til laga sem lagt var fram í fyrra á 141. löggjafarþingi 2012–2013 hafði farið fram gríðarlega mikið samtal sem snerist í fyrsta lagi um það að hvítbókin um löggjöf til verndar náttúru Íslands væri ekki sáttagrunnur heldur kortlagning, að þessi pakki, þetta gríðarlega mikla rit hér væri ekki einhvers konar sáttargjörð heldur legði það miklu frekar línur um það hvað málið fæli í sér.

Hvítbókin var kynnt á fundum úti um land. Hún var rædd víða á opnum fundum. Hún var meginumfjöllunarefni á haustþingi 2011 þar sem fjölmargir aðilar, bæði félagasamtök og hagsmunaaðilar aðrir, stofnanir og einstaklingar, komu að umræðum. Allt það ferli var óvenjulega opið vegna þess hversu dýrmætt það er og ég varð þess áskynja í ferlinu að margir umsagnaraðilar töldu að hvítbókin væri frumvarp, að hvítbókin væri í raun og veru endanleg tillaga stjórnvalda um lagasetningu. Það var ekki svo. Á þeim tíma var samtalið enn þá opið og enn þá í gangi.

Það má segja að þetta sé einn af þeim lærdómum sem mér sem ráðherra umhverfismála fannst skipta máli að við drægjum af hruninu, þ.e. að við hyrfum frá því verklagi sem við höfum allt of oft verið menguð af sem er að vinna frumvörp og grundvöll löggjafar í tiltölulega þröngu samhengi og stundum meira að segja svo þröngt að aðeins er unnið inni í ráðuneytunum með litlu samtali og almenningur hefur ekki aðkomu að því hvað þar er í gangi. Undirbúningur löggjafar á Norðurlöndunum er mjög gjarnan með þessum hætti, að settur er mikill tími í verkið og fjöldamargir sérfræðingar eru dregnir að borðinu til að þekkingin sé nógu rík sem liggur síðan til grundvallar frumvarpinu þegar það er lagt fram.

Þegar frumvarpið er síðan lagt fram í þinginu heldur þetta samtal áfram. Vegna þess að hér hefur aðeins verið rætt um hlutverk þingsins við krefjandi löggjöf eins og þá sem er hér á ferðinni vil ég geta þess sérstaklega að ég lagði í góðu samstarfi við þingnefndina mjög mikla áherslu á að þingnefndin gerði allar þær breytingar sem hún teldi til bóta á frumvarpinu og sem hún teldi horfa til betra jafnvægis gagnvart sem flestum aðilum í samfélaginu án þess þó að gengið væri á grundvallarmarkmið náttúruverndar sem er að gæta náttúrunnar sjálfrar vegna þess að veruleikinn er sá að rödd náttúrunnar er ekki við borðið. Það er hlutverk okkar þingmanna og hlutverk ráðherrans á hverjum tíma að gæta að því að náttúran eigi sér rödd. Náttúran er ekki í samtökum um akstur vélknúinna ökutækja eða í Samtökum atvinnulífsins eða iðnaðarins eða einhverju slíku. Þær raddir eru allar mjög sterkar og þar eru líka miklir peningar til að halda auglýsingaherferðum o.s.frv. á lofti. En ef við setjum fram lög um náttúruvernd þá er það þessi rödd sem við verðum að gæta að að sé við borðið. Og ekki bara rödd náttúrunnar sem slíkrar og hagsmuna hennar heldur líka rödd komandi kynslóða. Það er krefjandi verkefni og verkefni sem við verðum að tileinka okkur í sífellt ríkari mæli, við sem höldum utan um hvort sem er löggjöf eða framkvæmdarvaldið, þ.e. að gæta að því að þegar við ráðum ráðum okkar, þegar við tökum ákvarðanir að við hugsum okkur einn stól við borðið þar sem eiga sæti komandi kynslóðir vegna þess að við höfum ekki leyfi til að ráðstafa náttúrugæðum sem orðið hafa til, sem eiga sér hundruð og þúsundir ára sögu, með skammtímasjónarmið að leiðarljósi. Við höfum ekki leyfi til þess vegna þess að komandi kynslóðir hafa falið okkur það hlutverk að gæta þess.

Þetta er stundum kallað sjálfbær þróun en við höfum líka alþjóðlegar skuldbindingar sem ég hefði gaman af því að ræða einhvern tíma við hæstv. ráðherra við betra tækifæri og það er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Það eru fjöldamörg atriði í því frumvarpi til laga sem lagt var fram í fyrra, þ.e. í samþykktum lögum, sem byggja á þessum alþjóðasamningum og snúast um það að náttúran hafi sjálfstæða tilveru, þ.e. að hún sé mikilvæg, ekki bara sem andlag einhvers konar atvinnuuppbyggingar, ekki bara sem viðfangsefni einhverra sem vilja skoða hana, ganga um hana, aka um hana o.s.frv. heldur sjálfrar sín vegna. Í því efni hefur sífellt farið vaxandi sú sýn sem stundum er kennd við vistkerfisnálgun, þ.e. að náttúran sé ein heild. Við getum aldrei leyft okkur að fjalla um hana sem litla hluta. Þess vegna getum við ekki bara talað um jarðhita. Þess vegna getum við ekki bara talað um makríl. Þess vegna getum við ekki bara talað um hrafnaklukku af því að um leið og við grípum inn í einn þráð vistkerfisins þá erum við hugsanlega að hafa áhrif á aðra.

Við þekkjum það mörg að hægt er að kippa í þræði góða stund en einn daginn hrynur vefurinn allur og það er viðfangsefni okkar sem erum að fjalla um náttúru og nýtingu, af því að ég veit að hæstv. ráðherra er mikið í mun að tala máli nýtingar, að nýtingin sé alltaf með hliðsjón af þessum þáttum, að ekki sé gengið lengra en svo á hagsmuni náttúrunnar en að hún lifi það af inn í næstu kynslóðir. Verkefnið er nefnilega svo vandmeðfarið og aðkoma mannsins verður að vera þrungin auðmýkt vegna þess að náttúran getur verið án okkar en við getum ekki verið án hennar. Það er vandinn. Við erum bara auðmjúkur hluti af náttúrlegri heild lífríkisins, jarðminjanna o.s.frv. Það er áhugavert að horfa til þess að það er ekkert jarðfræðilegt afl sem hefur haft eins mikil áhrif og breytt eins miklu í veröldinni og maðurinn, og þá leggjum við saman alla heimsins jarðskjálfta, flóð og náttúruhamfarir af öllum stærðum og gerðum. En það er maðurinn sem hefur valdið mestum usla í náttúrunni. Þess vegna var það hér undir að færa íslenska löggjöf í áttina að meiri náttúruhyggju, að nálgast meira þá hugsun að það væri náttúran sjálf sjálfrar sín vegna sem ætti að njóta vafans og í framhaldinu af því gætum við tryggt viðgang mannkynsins inn í framtíðina.

Þetta er ekki séríslensk umræða. Þetta er vefur hugmynda og hugmyndafræði þar sem allt alþjóðasamfélagið er að færa náttúruverndarlöggjöfina í áttina að þessari sýn. Þess vegna er þetta mikilvægt og þess vegna er þessi löggjöf ekki bara hluti af einhverjum slagsmálum hér á síðasta kjörtímabili sem stjórnarandstaðan vildi stoppa af því að þetta var mál þáverandi ríkisstjórnar. En því miður varð þetta mál þess eðlis. Það varð þess eðlis í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu hér í húsi. Stjórnarandstaðan gekk svo langt í þeirri umræðu að nýta sér andstöðu við málið og kynda vísvitandi undir misskilning. Það kom í ljós undir lokin á umræðunni að hvorki sjálfstæðismenn né framsóknarmenn höfðu í raun og veru áhuga á efnislegri umræðu eða efnislegri nálgun í því að komast að nokkurri sameiginlegri niðurstöðu um þetta mál, því miður. Ég veit að margir eru hissa, hér eru ungir og nýir þingmenn sem eru hissa en staðan hér á síðasta þingi fyrir kosningar var algerlega með ólíkindum. Staðan var þannig að stjórnarandstaðan stoppaði hvert einasta mál og líka mál sem sátt var um. Hér sitja hæstv. ráðherrar uppi með það að vera með fullar þingmálaskrár af endurfluttum málum sem þeir stoppuðu sjálfir með málþófi. (Gripið fram í.) Það gerði hæstv. ráðherra hér með eld í augum og stoppaði hvert EES-málið á fætur öðru alveg freyðandi af réttlætiskennd. Þetta gerðu þeir hver á fætur öðrum. Það var stemningin hér. Það var hluti af þeirri stemningu sem við vorum að vinna í þegar til varð samkomulag um að fresta gildistöku laganna frekar en að ganga á efnisþætti þeirra.

Virðulegi forseti. Það er óendanlega margt sem hægt er að segja í þessari umræðu og ég geri ráð fyrir því að hún eigi eftir að taka meiri tíma bæði í umfjöllun nefndarinnar og síðan í framhaldinu því að ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um efnisatriði máls. En þetta er óskaplega vont mál (Forseti hringir.) og vond leið til þess að færa Ísland inn í einhverja framtíð.