143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi að minnsta kosti verið leið til þess að nálgast það markmið og eins og ég kom að áðan í andsvari er þetta kannski það viðfangsefni sem er hvað mest krefjandi varðandi náttúruvernd, þ.e. að ná með einhverju móti utan um utanvegaakstur. Ég er alveg sammála því sem hér hefur komið fram í umræðunni að það er engin trygging til að að koma í veg fyrir utanvegaakstur að kortleggja landið, alls ekki, ekki frekar en hraðatakmarkanir koma í veg fyrir hraðakstur.

Meginreglan er sú, og þar er ég líka tala um jeppafólk, að fólk vill fara að lögum. Fólk vill fara að reglum. Það er alls ekki þannig að það sé bara eitthvert barbarí í gangi á hálendinu, alls ekki, en fólk þarf að hafa einhverja leiðsögn og vita hverjar reglurnar eru o.s.frv. Eftir mjög mikla vinnu og mikil og löng samtöl margra aðila í þessum efnum (Forseti hringir.) voru menn að jafnaði sammála um að forsenda fyrir því að ná einhverjum tökum á þessum vanda væri kortagrunnur.