143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:39]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Andrúmsloftið í pólitíkinni á Íslandi þá var með þeim hætti að menn tóku því frekar fagnandi en hitt ef einhver spjót stóðu á þáverandi ríkisstjórn. Meðal annars var því tekið fagnandi að umræðan um utanvegaakstur — þ.e. hópur sem kenndi sig við ferðafrelsi og stóð fyrir undirskriftasöfnunum — færi fram þannig að til stæði að loka hálendinu, það stæði til að loka Íslandi. Sú umræða var aldrei leiðrétt. Henni var beitt á opnum fundum og mörg dæmi voru um það að enginn vilji var í raun og veru til þess að ná utan um það. Meira að segja var haft eftir einhverjum að sú sem hér stendur væri með einhvern takka held ég til þess að loka hálendinu, samkvæmt frumvarpinu væri það það dramatískt að til stæði að ráðherrann hefði eitthvert endanlegt vald í þeim efnum að geta bara lokað sisvona og fyrirvaralaust. Slík umræða (Forseti hringir.) fór fram bæði hér í þingsalnum, en ekki síður á vettvangi félagasamtaka. Ég man eftir fundum úti um land að undirlagi Sjálfstæðisflokksins.