143. löggjafarþing — 24. fundur,  18. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[19:47]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrrverandi umhverfisráðherra fyrir góða og innblásna ræðu. Mér finnst ég reyndar þurfa að taka það skýrt fram eftir umræðuna í kvöld að þetta er ekki kaldhæðni. Hins vegar saknaði ég eins alveg sérstaklega í þessari góðu ræðu. Ég er sammála um að maðurinn hefur sannarlega breytt ásýnd jarðar. Ég sakna einnar lífveru sérstaklega vegna þess að þingmaðurinn sagði að maðurinn hefði valdið mestum usla. Ég saknaði þess í ræðunni að maðurinn er engu að síður hluti af náttúrunni. Mér fannst það vanta inn í ræðuna.