143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Ég vil gera heilbrigðiskerfið að umtalsefni en víða um land er skortur á læknum og fyrir því eru ýmsar ástæður. Um 75% þjóðarinnar búa á suðvesturhorni landsins milli Hvítár og Hvítár eða á um fjórðungi landsins. Ég ætla ekki hér að auka togstreituna í umræðunni um landsbyggðina gegn höfuðborginni en það breytir því hins vegar ekki að um fjórðungur þjóðarinnar býr á um 75% landsins. Öll viljum við hafa greiðan aðgang að læknisþjónustu og mig langar að benda hér á ákveðna lausn.

Á aðalfundi Læknafélags Íslands árið 2012 var ályktað um dreifbýlislækningar eða héraðslækningar eins og sumir læknar tala um. Í þeirri ályktun stendur, með leyfi forseta, að skorað er á velferðarráðherra — nú heilbrigðisráðherra — „að binda í reglugerð heimild til að læknir með sérfræðileyfi geti fengið viðurkennda undirsérgreinina dreifbýlislækningar“ og skilgreina um leið hvað felst í því.

Fram kemur í greinargerð með ályktuninni að lítil endurnýjun hafi átt sér stað meðal heimilislækna á landsbyggðinni, jafnframt að starf læknis í dreifbýli, héraði eða svæði sé að mörgu leyti frábrugðið læknastarfinu á mölinni. Fámennið veldur einnig því að vaktabyrði er almennt meiri á strjálbýlum svæðum og fjölbreyttari vandamál sem koma upp á vöktum en á sama tíma er möguleikinn á félagslegum og ekki síst faglegum stuðningi kollega minni.

Síðan árið 2003 hefur Sjúkrahúsið á Akureyri tekið formlega þátt í menntun lækna en ég er ekki að tala um viðbót við það nám heldur að taka upp nýja námsgrein enda Ísland strjálbýlt land. Nám í dreifbýlislækningum er víða viðurkennt og beinlínis nauðsynlegt eins og í Noregi, Kanada og Ástralíu og áhugavert að fylgjast með málum sem eru að gerast á Grænlandi. Ég sé fyrir mér uppbyggingu og styrkingu Háskólans á Akureyri í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri vegna þessa og um leið uppbyggingu og styrkingu heilbrigðisstofnana víða um land.