143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gera flokkun sorps að umræðuefni mínu í dag. Því miður held ég að þau mál séu á heildina litið ekki í nógu góðum farvegi hjá þjóðinni. Þegar ég hóf störf á þessum vinnustað þurfti ég, líkt og aðrir landsbyggðarþingmenn, að koma mér upp heimili hér á suðvesturhorninu. Hluti af því að reka heimili er að afla fanga og síðan að ganga frá umbúðum og afgöngum. Hér er afar gott aðgengi að mat og öðrum nauðsynjum en þegar kemur að því að losa sig við sorp kárnar gamanið og þátttakan ekki eins almenn og í því að afla aðfanga.

Einfalt er að taka pappa frá og setja í sértunnu sem boðið er upp á og annað getur farið í heimilissorp. Hér finnst mér að við gætum gert betur. Auðvitað er þetta ekki algilt og vissulega eru einstaklingar sem taka þessi mál föstum tökum og sinna þeim vel. En hér þarf almenna hugarfarsbreytingu og svolítið átak. Mörg minni sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa staðið sig með stakri prýði í flokkun sorps. Þar sem ég þekki best til, á Vopnafirði, hófu íbúar að flokka sorp um áramótin 2010/2011. Farin var sú leið að hvert heimili flokkar sitt sorp, pappír er til dæmis flokkaður í minnst þrjá flokka o.s.frv. Síðan fer hver með sitt góss á flokkunarstöð en heimilissorp sér sveitarfélagið um að sækja. Það er skemmst frá því að segja að heimilissorp minnkaði um 60% og flokkunarstöðin er orðin einn af samkomustöðum íbúa þar sem ræða má málin.

Þetta er hægt eins og sjá má af fjölmörgum dæmum um landið og hver einstaklingur verður að taka ábyrgð á sínu umhverfi og leggja sitt af mörkum. Ég legg því til að við þingmenn hugsum okkar gang á vinnustaðnum og byrjum á pappírsflóðinu hérna í húsinu. Ég vil benda á að ruslaföturnar í salnum eru fyrir almennt sorp en pappír til endurvinnslu fer í þar til gerða kassa hér frammi.

Björgum verðmætum og verum ekki í rusli.