143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Íslendingar hafa mikla möguleika á að auka sjálfbærni sína, bæði í matvælaframleiðslu og framleiðslu á innlendu eldsneyti. Umræðan um aukna sjálfbærni hefur staðið yfir í mörg ár, en ég held að þegar hrunið átti sér stað haustið 2008 og landið var á barmi þess að lokast höfum við orðið enn þá meðvitaðri um mikilvægi þess að auka sjálfbærni hér til muna.

Við stöndum nú þegar mjög framarlega í matvælaframleiðslu og getum gert enn betur, þ.e. aukið framleiðsluna og gert meira af því að fullvinna hráefni, nýta það betur og auka þannig verðmæti.

Sjávarútvegsfyrirtæki eru mörg hver komin vel á veg í þróun í þessa átt og eru í heimsklassa. Sjávarklasasamstarf hefur gefið mjög góða raun.

Garðyrkjubændur og framlag þeirra til matvælaframleiðslu er verðmætt. Íslenskir garðyrkjubændur eru mjög framarlega á sínu sviði og aðstæður hér til ylræktar eru framúrskarandi góðar. Það er gaman að segja frá því að ásókn í nám í ylrækt hefur aukist frá árinu 2008 og nú stunda 25 nemendur nám í ylrækt við Garðyrkjuskólann í Ölfusi.

Haustfundur garðyrkjubænda var haldinn á Flúðum sl. föstudag og sú sem hér stendur sótti þann fund sér til fróðleiks. Þar voru haldin nokkur áhugaverð erindi. Það sem meðal annars kom fram var að afkoma í greininni er misjöfn eftir framleiðslutegundum þegar horft er til síðustu tíu ára en á heildina litið er afkoman á góðri uppleið í öllum tegundum, sem segir okkur að þar sé um góða fjárfestingarkosti að ræða.

Stöðug vöruþróun er í gangi hjá Sölufélagi garðyrkjubænda og það er gaman að segja frá því að meðal þess sem kemur í hillur verslana á næstunni er alíslensk tómatsósa og ýmsar spennandi og ljúffengar tómatvörur. Nú flytjum við til dæmis inn um 800 tonn af tómatvörum árlega. Þarna eru greinilega tækifæri.

Að lokum vil ég ítreka að það er þjóðarhagur að garðyrkjubændur fái sanngjarnara raforkuverð. Við hljótum að geta sameinast um að klára það verkefni sem fyrst.