143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru þingmenn. Það getur verið freistandi í umræðunni að einfalda hlutina og stilla málum upp; svart og hvítt, með eða á móti, í þessu eða hinu liðinu. Stjórnarliðar margir hverjir tala ítrekað um stjórnarandstöðuna. Stjórnarandstaðan þetta, stjórnarandstaðan hitt. Ég heyrði til dæmis tvisvar sinnum um helgina stjórnarliða segja að stjórnarandstaðan hefði gagnrýnt hagræðingartillögurnar.

Mér finnst fjölmiðlar reyndar líka hafa þessa tilhneigingu.

En ég hef fréttir að færa. Stjórnarandstaðan sem svo er kölluð samanstendur af fjórum flokkum og þeir hafa ekki alltaf allir sömu skoðun á málunum. Við í Bjartri framtíð höfum til dæmis ekkert sérstaklega tjáð okkur um þessar hagræðingartillögur. Við munum örugglega gera það ef eftir því verður leitað. Það er því ekki rétt sem hefur komið fram, að stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt tillögurnar og við því hafi mátt búast, eins og það var orðað.

Lífið væri örugglega einfaldara ef það sætu bara tveir flokkar í stjórnarandstöðu eða ef allir flokkarnir fjórir væru alltaf sammála, en það er ekki þannig. Lífið er ekkert alltaf einfalt og mér finnst í rauninni að með því að tala svona séum við að færa pólitíkina niður á lægra plan. Mér finnst að við ættum frekar að reyna að lyfta pólitíkinni upp á hærra plan. Það þýðir að það þarf að auka við einhverjum orðum í setningum og kannski nefna flokkana sem um er að ræða. Ég á eftir að koma hérna upp vikulega eða mánaðarlega, allt eftir því hver framvindan verður.

Þetta er í annað skiptið sem ég kem hérna upp og bendi á þetta.