143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:04]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera hér að sérstöku umræðuefni tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu, réttindagæslu fatlaðs fólks, Persónuverndar, umboðsmanns barna og mögulega úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í fyrsta lagi vil ég velta upp hvernig þessar ólíku stofnanir falla saman og skoða kosti þess og galla að sameina þær hugmyndafræðilega og fjárhagslega.

Í öðru lagi vil ég spyrjast fyrir um skilgreiningar á hugtökum en stofnunin vísar einvörðungu til borgaralegra réttinda, svokallaðra fyrstu kynslóðar mannréttinda, en ekki félagslegra réttinda sem eru skilgreind innan mannréttindafræða sem önnur kynslóð mannréttinda.

Í þriðja lagi vil ég beina sjónum mínum að því hvað er mikilvægt að hafa hugfast við sameiningu þessara stofnana, bæði í tengslum við að sameiningin fari fram í sátt og samráði við starfsfólk þessara stofnana og þeirra hópa sem þær vernda og með sérstöku tilliti til margþættrar mismununar og samtvinnunar mismunarbreyta svo tryggt sé með bestum hætti að stofnunin þjóni tilgangi sínum.

Ef hlutverk áðurnefndra stofnana er skoðað er ljóst að þær eiga flestar margt sameiginlegt, t.d. það að eiga að hafa eftirlit með réttindum þeirra hópa sem þeim ber að vernda, veita upplýsingar til hópsins sjálfs sem og stofnana og almennings um réttindi og möguleika ásamt því að fylgjast grannt með og hafa áhrif á lagasetningu og stefnumótun í málefnum þessara hópa. Stofnanirnar heyra flestar undir tiltekinn ráðherra þó að sumar virðist eiga að vera óháðari hinu opinbera eins og umboðsmaður barna. Sumar stofnanirnar hafa vald til þess að úrskurða í tilteknum málum, eins og Jafnréttisstofa, en aðrar hafa það ekki og sumar stofnanir blanda sér í einstaklingsmál, t.d. réttindagæslu fyrir fatlað fólk, en aðrar stofnanir gegna ekki slíku hlutverki. Tel ég mikilvægt að vandað sé til verka á þessu sviði og að hlutverk stofnunar um borgaraleg réttindi sé bæði skilgreint og skýrt, ekki síst fyrir þá sem leita til hennar sem og að leitast verði við að tryggja að öll sviðin mæti þeim verkefnum sem ráðast af þörfum þess hóps sem það varða. Þó að ólík svið verði að vera samræmd verða þau að taka mið af sérstöðu hvers hóps, t.d. barna, fólks af erlendum uppruna eða fatlaðs fólks.

Þó að grunnur mannréttindaverndar og jafnréttisþróunar ólíkra valdaminni hópa í samfélaginu sé að mestu leyti sá sami hafa þeir sína sérstöðu og þar af leiðandi kröfur um fjölbreytt verklag. Það sem sker mest í augu hvað varðar tillögurnar að sameiningu ólíkra stofnana varðar Persónuvernd og hugsanlega úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þarna tel ég gengið of langt. Vissulega varða Persónuvernd og úrskurðarnefnd um upplýsingamál mannréttindi en þó með allt öðrum hætti en Fjölmenningarsetrið, Jafnréttisstofa, réttindagæsla fatlaðs fólks og umboðsmaður barna. Þar er um að ræða stofnanir sem eiga að vernda undirskipaða hópa vegna slæmrar valdastöðu þeirra.

Mannréttindahugtakið hefur þróast í áranna rás og þegar Sameinuðu þjóðirnar hófu að vinna að lagasetningu voru uppi mismunandi skoðanir og hugmyndir um skilgreiningu á hugtakinu. Í upphafi var fyrst og fremst talað um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem snerust fyrst og fremst um réttindi einstaklingsins gagnvart ríkisvaldinu, að tryggja lýðræði, tjáningarfrelsi, trúfrelsi, kosningar- og kjörgengisrétt og annað í sambærilegum dúr. Eru þetta oft kölluð fyrstu kynslóðar mannréttindi.

Í kjölfar þess að meðvitund jókst um það hvernig ákvörðunarhópar voru menningarlega, pólitískt og kerfislægt undirskipaðir, eins og konur, svart fólk, fatlað fólk og hinsegin fólk, fékk krafan um að viðurkenna mannréttindi jafnt sem efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi aukinn hljómgrunn. Áðurnefndir hópar voru beittir illri meðferð, lítilsvirðingu og annars konar ofbeldi auk þess sem það fólk var útilokað í samfélaginu.

Á jafnréttisþingi velferðarráðuneytisins fyrr í mánuðinum fjallaði Þorgerður H. Þorvaldsdóttir, doktor í kynjafræði, um útvíkkun jafnréttisstarfs og margþætta mismunun í málstofu um útvíkkun jafnréttishugtaksins. Þar fjallaði hún um það að ekki væri spurning um hvort heldur hvenær Jafnréttisstofa yrði útvíkkuð og þá með það að leiðarljósi að tryggja að tekið verði tillit til margþættrar mismununar og þeirra samlegðaráhrifa sem tengjast því að tilheyra mörgum hópum. Væri gott að fá viðbrögð hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra við þessum hugleiðingum, þ.e. hvort ekki þurfi að forðast að blanda saman stofnunum með mjög ólík hlutverk í stað þess að einblína á jafnréttisþörf ólíkra minnihlutahópa, hvernig tryggja megi að um sterka stofnun verði að ræða, að hún hafi skýr markmið og byggi á heildarjafnréttislögum og hvort ekki sé nauðsynlegt að endurskoða heiti stofnunarinnar í samræmi við nútímaskilgreiningar á mannréttindum.

Að lokum kalla ég eftir viðbrögðum við því með hvaða hætti skuli unnið í samráði við stofnanir og hópana sem þær varða svo þetta ferli verði unnið án átaka og í sátt sem er algjört lykilatriði í þróun jafnréttismála og mannréttindaverndar á Íslandi.