143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilsverð umræða og mér finnst mikilsvert að við áttum okkur á því hvað felst í mannréttindum. Eins og hv. þm. Freyja Haraldsdóttir benti á hefur mannréttindalöggjöf þróast allmikið undanfarið. Mér hefur oft orðið hugsað til þess að þegar við á Alþingi samþykktum þingsályktun um stjórnlagaráð vorum við með átta liða upptalningu yfir það hvað stjórnlagaráð ætti að fjalla um og þar var ekkert um mannréttindi. Eftir upptalninguna var þessi setning, með leyfi forseta:

„Stjórnlagaráð getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er að framan.“

Eftir umfjöllunina ákvað stjórnlagaráð að ráðast í endurskoðun mannréttindakaflans og gerði tillögu um veigamikla breytingu, einmitt þá að færa inn í stjórnarskrána þau réttindi sem framsögumaður nefndi hér, annarrar kynslóðar réttindi, þ.e. efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Eins og margir muna ætlaði allt um koll að keyra og helst var að skilja að dómskerfið allt mundi leggjast á hliðina ef þetta yrði leitt inn í stjórnarskrána. Þau réttindi eiga sér þó samsvörun í Mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðlegum samningum sem við tökum þátt í. Mörg þeirra hafa meira að segja verið færð inn í lög hér á landi.

Mér hefur fundist sú staðreynd að stjórnlagaráðið taldi nauðsynlegt að endurskrifa og bæta við mannréttindakaflann, en ekki við, benda til þess að við beinum sjónum okkar oft ekki sem skyldi að grunngildum mannlífsins og að því þurfi að breyta. Því er til dæmis breytt með því að það sé alveg ljóst (Forseti hringir.) af nafngiftum og öðru á stofnunum sem eiga að fást við (Forseti hringir.) mannréttindi hvað tilheyrir þeim.