143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir að vekja máls á þessari ágætu tillögu hagræðingarhópsins og jafnframt þakka ég ráðherranum fyrir hennar orð. Hún segir að tillagan sé þegar komin í vinnslu og eins og ráðherrann sagði verður hægt að koma með ábendingar inn á vef ráðuneytisins.

Herra forseti. Hagræðingarhópurinn var settur á fót í sumar til þess að leggja til aðgerðir til að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins. Hópnum var falið að skoða hvort gera mætti kerfisbreytingar sem mundu leiða af sér aukna framleiðni og betri nýtingu fjármuna án þess að draga þrótt úr öllu kerfinu. Ég bind miklar vonir við að þessi tillaga muni gera einmitt það, að við ætlum okkur þarna að fara yfir þessi verkefni. Hópnum var falið að staldra við og spyrja spurninga eins og: Eru verkefni ríkisins nauðsynleg? Í þessu tilviki var sagt: Já. Þess vegna eru þessir málaflokkar settir þarna og gert ráð fyrir að þessar stofnanir renni saman í eina.

Þar með er verið að segja að verkefnin séu mikilvæg en við í hópnum teljum hægt að ná fram betri nýtingu fjármuna án þess að draga kraftinn úr þeirri mikilvægu starfsemi sem þarna fer fram.

Það verður gaman að fylgjast með því, herra forseti, hvernig tekst til við framvinduna, hversu hratt hægt verður að vinna þessa tillögu og ég hvet ráðherra ríkisstjórnarinnar til dáða í því efni vegna þess að út úr þessu öllu saman getur komið sterkari stofnun sem hefur meiri slagkraft og þar með náum við betri nýtingu fjármuna fyrir okkur öll og jafnframt betri þjónustu og nálgun á þessi mikilvægu verkefni.