143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með og þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Þrátt fyrir að þessi 49. tillaga hagræðingarhópsins sé óútfærð eins og flestar aðrar sem komu frá hópnum er hún að mörgu leyti áhugaverð. Það má fastlega gera ráð fyrir samlegðaráhrifum og stofnunin sem ég mundi vilja kalla, eins og hér hefur nú kannski verið rætt, Mannréttindastofu Íslands yrði örugglega faglega sterkari. En þetta er ekkert nýtt af nálinni, það kom meðal annars fram þegar fjárlaganefnd fór norður á Akureyri í haust og heimsótti þar ríkisstofnanir, m.a. Jafnréttisstofu sem hafði verið að viðra sig upp við aðrar, m.a. Fjölmenningarsetur Vestfjarða, og auðvitað leita allir leiða til að styrkja sína stofnun.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um Persónuvernd. Ég tel hana ekki eiga heima í þessari sameiningu og vona að þar um komi ábendingar inn á vef ráðuneytisins. Hún starfar með allt öðrum hætti, veitir til dæmis rannsóknarleyfi og annað sem ég held að engin önnur stofnun í þessari tillögu geri. Það væri til dæmis nær að huga að sameiningu við Vinnumálastofnun, hún hefur að mörgu leyti líkara starf með höndum. Ég vil líka undanskilja umboðsmann barna því að ég tel að börn eigi að eiga sér sérstakan talsmann og minni í þessu sambandi á það að á Norðurlöndunum var sambærileg stofnun látin í friði þegar stofnanir voru sameinaðar.

Hvað varðar réttindagæslumenn fatlaðra held ég að í þessum dreifðu byggðum þar sem starfsmennirnir eru átta gæti orðið mikill faglegur stuðningur fyrir þá sem þjónustunnar njóta og þeirra sem veita því að þar skarast ýmis mál. Mikilvægast af öllu er að huga að þessum alþjóðlegu skuldbindingum sem við stöndum frammi fyrir og lúta að jafnrétti kynjanna, réttarvernd minnihlutahópa og banni við (Forseti hringir.) mismunun þar sem við erum því miður enn þá allt of langt á eftir.