143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:28]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka frummælanda þessa mikilvæga málefnis, hv. þm. Freyju Haraldsdóttur, fyrir að vekja athygli á þessum málaflokki, þessu umræðuefni og þessari tillögu hagræðingarhópsins sem hér hefur verið að störfum. Óneitanlega kvikna hjá manni ýmsar spurningar þegar maður fer að kafa aðeins dýpra í málið. Ég tek undir orð hv. þm. Freyju Haraldsdóttur um nafngiftina, hvort stofnunin mætti ekki heita mannréttindastofa sem er fallegt orð og hefur fallegt hlutverk og er hjá okkur til dæmis staðfest í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég mundi halda að það ætti að vera leiðandi plagg í þessari vinnu allri saman. Það hefur staðist tímans tönn, var staðfest 10. desember 1948 og hefur tekið litlum breytingum síðan þá.

Þegar maður rýnir í mannréttindayfirýsingu Sameinuðu þjóðanna veltir maður líka fyrir sér hvort fleiri stofnanir gætu komið að þessari vinnu til að bæta stöðu ákveðinna minnihlutahópa í samfélaginu hjá okkur. Í 15. gr. er til dæmis sagt að allir hafi rétt á ríkisfangi. Þá veltir maður fyrir sér innflytjendamálunum, hvar eru þau í þessari umræðu? Svo er Útlendingastofnunin o.fl.

Í 23. gr. er áréttað að allir eigi rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi, eigi rétt á vinnueftirliti, Vinnumálastofnun o.fl. í þeim dúr. Samkvæmt 25. gr. eiga allir rétt á ákveðnum lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra. Þá velti ég fyrir mér aðkomu sveitarfélaganna að þessum undirbúningi. Einnig erum við með Mannréttindaskrifstofu Íslands og ég velti fyrir mér hvar henni sé fundinn sess í þessari vinnu allri saman.

Ég hvet ráðherra sem er greinilega byrjaður að vinna að þessu máli (Forseti hringir.) til að vanda vel til verka. Ef ekki er hægt að vanda til verka þegar kemur að mannréttindum einstaklinga erum við illa stödd.