143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögur hagræðingarhópsins um sameiningu ólíkra stofnana í stofnun borgaralegra réttinda og ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Í tillögu hagræðingarhópsins er gert ráð fyrir að komið verði á fót stofnun borgaralegra réttinda með sameiningu Fjölmenningarseturs, Jafnréttisstofu, réttindagæslu fatlaðs fólks, Persónuverndar og umboðsmanns barna. Jafnframt þessu verði skoðað hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál ætti að vera hluti þessarar stofnunar. Ekkert kemur þó fram um það hvort þessari stofnun sé ætlað að gæta félagslegra réttinda eða menningar- og efnahagslegra réttinda sem eru að sjálfsögðu stór hluti af mannréttindum og jafnréttismálum.

Mér finnst málið allt vera vanreifað. Ekki liggja fyrir neinir útreikningar um hvað mundi sparast né hver tilkostnaður yrði við slíkar breytingar. Enn fremur kemur hvergi fram hver markmiðin séu með þessari tillögu önnur en þau að ná fram hugsanlegum sparnaði sem ekki liggur fyrir. Allan rökstuðning vantar fyrir því hvaða faglegi ávinningur næðist fram með þessari sameiningu og hver fjárhagsstaða slíkrar stofnunar yrði er allsendis óljóst. Óttast ég að þær stofnanir sem þarna eiga í hlut sem líka eru staðsettar á landsbyggðinni og byggt hafa upp faglegt starf verði lagðar niður við slíka ráðstöfun og heyrist mér það koma fram í máli hæstv. ráðherra.

Enginn efast um mikilvægi þess að styrkja og efla þær stofnanir sem sinna félagslegum, menningarlegum og öðrum borgaralegum réttindum almennings í landinu, fatlaðra sem ófatlaðra, en áður en til sameiningar slíkra stofnana kemur verður að skilgreina markmiðin og leiðir varðandi undirliggjandi málaflokka sem að þessu snúa. Það þarf að sýna fram á faglegan ávinning og betri þjónustu sem af þessari sameiningu mundi leiða fyrir þá sem þjónustunnar njóta. Síðast en ekki síst (Forseti hringir.) þurfa fjárhagslegir burðir slíkrar stofnunar, ef af yrði, að vera tryggðir (Forseti hringir.) til að sinna hlutverki og þjónusta íbúa (Forseti hringir.) alls landsins.