143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

ný stofnun um borgaraleg réttindi.

[14:36]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og öllum öðrum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu. Það er alltaf skemmtilegt að taka þátt í umræðu sem lætur hjartað slá svolítið hraðar og ég verð að viðurkenna að það hefur gert það, sérstaklega undir lokin.

Að sjálfsögðu er þessi umfjöllun um hugmyndafræði og hlutverk þessarar stofnunar, ekki nafngift hennar. Það hlýtur að vera augljóst, er það ekki, að við hljótum að þurfa að vita hvaða hlutverki eitthvað gegnir til að vita hvað það á að heita og við þurfum að segja það sem við meinum og meina það sem við segjum? Við getum ekki kallað einhverja stofnun eitthvað sem hún er ekki.

Ég held að þessar breytingar og í rauninni sameining geti, ef vel er að henni staðið, verið mjög góð. Þarna er um að ræða ólíka hópa, fólk er ekki bara karlar og konur heldur erum við alls konar annað líka, og þá er eðlileg þróun að nýta þá krafta sem búa í ólíkum minnihlutahópum til að berjast saman og standa vörð um réttindin. Ég held að samvinna hópanna geti líka verið góð og stuðlað að faglegum stuðningi hvers við annan eins og komið hefur fram.

Þetta er samt umdeilt og hefur verið. Til dæmis í jafnréttisbaráttunni hefur verið ótti og hræðsla við það að einangra jafnréttisbaráttuna. Við þurfum að taka tillit til þess að allir hóparnir eru hræddir um sig og sína stöðu. Þess vegna er mikilvægt að vanda virkilega til verka.

En áður en ég þakka endanlega fyrir þessar umræður verð ég að nefna í lokin að ég held að við hv. þm. Brynjar Níelsson þurfum að fá okkur einn hressan kaffibolla og ræða saman um mannréttindi.