143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Síldardauðinn í Kolgrafafirði veturinn 2012–2013 er fordæmalaus hér á landi að því er best er vitað hvað magn og umfang varðar. Raunar er fá sambærileg tilvik að finna í heiminum. Í tveimur viðburðum í desember 2012 og febrúar 2013 drápust samtals um eða yfir 50 þúsund tonn af síld sem rak í gríðarlegu magni á land, einkum í síðara skiptið. Orsök síldardauðans virðist hafa verið súrefnisleysi en enn eru uppi spurningar um hvaða þættir höfðu þar mest áhrif. Hættan virðist mest yfir dimmustu mánuðina þegar ljóstillífun er lítil í stilltu veðri og þegar mikið magn síldar safnast saman inni á firðinum. Spurningar hafa einnig vaknað um hvort þverun fjarðarins kunni að hafa haft áhrif á súrefnisbúskap í innri hluta hans en ekki er hægt að gefa óyggjandi svör um það að svo stöddu.

Ekki er heldur auðvelt að meta líkur á að slíkur viðburður endurtaki sig því að ljóst er að á undanförnum árum hefur stundum verið mikið magn síldar á þessum slóðum á dimmustu mánuðunum án þess að viðlíka viðburður hafi orðið. Vera kann að súrefniskrefjandi rotnun eftir fyrri viðburðinn hafi verið einn af orsakaþáttum seinni síldardauðans. Niðurstöður rannsókna munu vonandi gefa betri mynd af áhættuþáttum sem getur auðveldað ákvörðun um aðgerðir en ljóst er þó að alltaf verður nokkur óvissa um líkur á endurtekningu á þessum atburðum.

Stjórnvöld gripu til hreinsunaraðgerða síðastliðinn vetur þar sem mikil sjón- og lyktarmengun fylgdi síldardauðanum og óttast var að grútarmengun skaðaði fuglalíf, þar á meðal hafarnarstofninn. Hreinsunaraðgerðir tókust vel að mati Umhverfisstofnunar og sjást nú lítil merki um viðburðina. Einnig settu stjórnvöld fé til vöktunar og rannsókna á aðstæðum í firðinum til að skilja betur orsakir viðburðanna og byggja undir hugsanlegar aðgerðir til að koma í veg fyrir endurtekningu þeirra eða í það minnsta draga úr líkum á því. Þessar aðgerðir hafa kostað ríkissjóð 40 millj. kr. en einnig hafa opinberar stofnanir, einkum Hafrannsóknastofnun, haft kostnað af rannsóknum og aðgerðum vegna viðburðanna. Erfitt er að meta tjónið vegna síldardauðans en giskað hefur verið á að það gæti verið um 2–3 milljarða tap vegna minni afla úr íslenska sumargotsstofninum. Tjónið gæti verið meira en jafnvel þótt matið lækkaði er ljóst að miklir hagsmunir eru hér á ferð fyrir þjóðarbúið í heild.

Hreinsun á fjörum skiptir svo heimamenn miklu máli og má telja líklegt að byggð á bænum Eiði hefði verið í hættu ef ekki hefði verið gripið til aðgerða þar. Það þarf svo vart að skýra það nánar að það væri ólíðandi fyrir heimamenn og viðkomandi sveitarfélag að búa mánuðum eða jafnvel missirum saman við þúsundir tonna af rotnandi fiski í fjörum í alfaraleið.

Ég setti á laggirnar tengiliðahóp, m.a. í samstarfi við innanríkisráðherra, til að tryggja gott flæði upplýsinga milli ráðuneytanna, stofnana og heimamanna sem fjalla um málefni Kolgrafafjarðar og til að fjalla um ýmsar hugmyndir og tillögur sem komið hafa fram og koma þeim áleiðis til ráðherra og réttra aðila. Ég tel að það starf hafi verið gagnlegt.

Á grunni þeirrar umræðu var ráðist í gerð viðbragðsáætlunar um mögulegan frekari síldardauða og vöktun á svæðinu efld. Hópurinn hefur einnig tekið saman fjölmargar tillögur um fyrirbyggjandi aðgerðir o.fl. og ýtt á frekari útfærslu þeirra og kostnaðarmat. Þessar tillögur bíða svo frekari mats sérfræðinga á fýsileika ákvörðunar stjórnvalda um framkvæmd og fjármögnun.

Það má setja viðbúnað stjórnvalda vegna ástandsins í Kolgrafafirði í þrjá flokka:

1. Vöktun á ástandi fjarðarins og staðsetningu síldarinnar.

2. Viðbragðsáætlun vegna hugsanlega endurtekins viðburðar.

3. Fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja að atburður af þessu tagi endurtaki sig ekki.

Það er kannski rétt að byrja á því síðasttalda því að auðvitað væri best ef stórfelldur síldardauði í Kolgrafafirði endurtæki sig ekki. Eina lausnin sem virðist geta með nokkuð öruggum hætti komið í veg fyrir síldardauða í innsta hluta fjarðarins er sú að loka opinu á þveruninni þar sem nú er brú, annaðhvort til frambúðar eða tímabundið, með fyllingu eða færanlegum lokum af einhverjum tagi. Þetta er þó ekki hægt með skömmum fyrirvara.

Þverun fjarðarins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og róttæk breyting á þeirri framkvæmd sem mundi í raun breyta innri hluta fjarðarins í lokað lón þar sem sjávarfalla gæti ekki þyrfti einnig að fara í mat samkvæmt lögum. Jafnvel þótt gerð yrði breyting eða undanþága á lögum er ljóst að töluverðan tíma þyrfti til undirbúnings og framkvæmda því þverunin var ekki hönnuð til að loka firðinum og taka á sig þunga sjávarfalla. Þarna þyrfti einnig að huga að öryggisþáttum og verkfræðilegri hönnun jafnt sem umhverfissjónarmiðum. Kostnaður við þetta er gróflega metinn 500 millj. kr. eða meira, undirbúningstími um tveir mánuðir og framkvæmdatími um einn. Ég tel ákaflega hæpið að grípa til varanlegrar lokunar nú í vetur vegna tímans og óvissu um fýsileika þessa kosts án fullnægjandi mats. Ég tel hins vegar ekki rétt að útiloka þennan möguleika og rétt að undirbúa hann ásamt öðrum kostum.

Eru aðrir möguleikar í boði? Það er enginn skortur á hugmyndum og fjölmargir aðilar hafa sent inn tillögur til ráðuneyta, stofnana og heimamanna og hefur listi yfir helstu tillögur verið tekinn saman í ráðuneytinu. Einn möguleiki er sá að opna þverunina frekar til að hafa áhrif á strauma, sjóræstingu og súrefnisbúskap. Þessi möguleiki væri enn dýrari en lokun og árangur óviss. Engu að síður hafa Vegagerð og Hafrannsóknastofnun sett í gang verkefni sem miðar að því að kanna strauma, súrefnismettun og fleira innan brúar. Niðurstöður þessa verkefnis liggja ekki fyrir fyrr en á næsta ári og ekki er ljóst á þessari stundu hvort þær munu gefa svar við hugsanlegum áhrifum þverunar á súrefnismettun innan brúar.

Annar möguleiki er að koma upp einhvers konar fælingarbúnaði skammt fyrir utan brúna þannig að síldin mundi forðast að synda þangað inn fyrir. Nú þegar liggja fyrir nokkrar útfærslur að slíkri fælingargirðingu sem notast við hvít spjöld, loftbólur, rafmagn, ljós eða hljóð sem menn telja líklegt að síldinni standi stuggur af. Lausn af þessu tagi gæti verið miklum mun ódýrari en lokun fjarðarins og hefði minni umhverfisáhrif. Það er þó engin vissa um að fælingin virki sem skyldi en unnið er nú að frekari útfærslu á kostnaðarmati og vænlegum tillögum í þá veru.

Enn ein tillaga sem hefur komið upp er súrefnisauðgun fjarðarins þegar talið er að þar sé síld og hætta á súrefnisskorti. Ráðuneytið hefur óskað eftir verkfræðilegri úttekt á þeim kosti ásamt kostnaðarmati.

Þá má nefna að veiðistjórnun gæti haft áhrif, t.d. ef veiðar væru leyfðar á síld innan brúar en ekki rétt fyrir utan þar sem hætta væri á að síldin fældist innar. Mun ég skoða hvort slíkt sé fýsilegt sem sjávarútvegsráðherra að fengnu mati Hafrannsóknastofnunar. Sumar hugmyndir sem komið hafa að lausn kunna að virðast langsóttar en ég tel æskilegt að sem flestar séu útfærðar aðeins nánar og metnar af sérfræðingum.

Þetta verkefni er líklega einstakt á heimsvísu og rétt að ganga að því með opnum huga en útiloka kosti sem nánari greining sýnir að eru vart fýsilegir eða allt of dýrir. Hópur ráðuneytisstjóra hefur verið settur á fót til að fara yfir kosti í stöðunni og ráðleggja ríkisstjórn varðandi hugsanlegar framkvæmdir og kostnað við þær.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um viðbragðsáætlun við hugsanlega nýjum síldardauða. Slík áætlun hefur verið unnin af Umhverfisstofnun og nýtur góðs þar af reynslunni frá fyrra vetri en þó er ljóst að fjaran við Eiði getur ekki rúmað mikið magn af dauðri síld í viðbót við það sem þar er grafið nú. Verið er að skoða möguleika á að dæla dauðri síld í pramma og flytja hana út fyrir brú þar sem strauma gætir. Ég ítreka að auðvitað vonumst við til að aldrei verði gripið til slíkrar áætlunar en það er rétt að hafa hana við höndina þar sem við erum ekki í þeirri stöðu að geta útilokað frekari síldardauða.

Að síðustu er rétt að geta bættrar vöktunar. Hafrannsóknastofnun fylgist með síldinni og sérstaklega á umræddu svæði og fer reglulega í leiðangra á svæðið. Baujur fylgjast með súrefnismettun og öðrum umhverfisþáttum í firðinum og unnið er að endurbótum á þeirri vöktun þannig að hægt sé að fá rauntímaupplýsingar um ástandið. Það verður ekki eingöngu til að bæta þekkingu okkar á aðstæðum og áhættuþáttum, sem er auðvitað gagnlegt, heldur getur það líka orðið til þess að styðja mótvægisaðgerðir þannig að til dæmis verði reynt að fæla síldina með veiðum innan brúar eða hvalahljóðum ef súrefnismettun sýnir fram á hættuástand. Hægt er að segja að við séum með Kolgrafafjörð í gjörgæslu og munum við fylgjast grannt með öllum áhættuþáttum og breytingum.

Sú vinna sem ég hef nefnt hér er ekki bara til að undirbúa komandi vetur heldur einnig framtíðina því að allar líkur eru á að sumargotssíldarstofninn muni dvelja á þessum slóðum í einhverjum mæli í framtíðinni þótt síldin velji mismunandi vetrardvalarstaði við landið og sé að mörgu leyti óútreiknanleg skepna. Ef þessi vetur líður án stóráfalla, sem við vonum, þarf samt að hugsa til lengri tíma. Segja má að tíminn vinni með okkur við að meta og þróa bestu fyrirbyggjandi aðgerðir því að við búum þá að niðurstöðum rannsókna og tilrauna og getum útfært betur þær fjölmörgu tillögur og hugmyndir sem á borðinu liggja. Slíkt kann alla jafna betri lukku að stýra en að renna blint í sjóinn með það.

Að margra mati er eina örugga lausnin til að hindra síldardauða í innsta hluta fjarðarins lokun fjarðarins. En ég met það svo að hún sé ekki raunhæf þennan vetur. Við vitum allt of lítið um áhrif hennar á umhverfið og lífríkið og öryggi samgöngumannvirkisins sem yrði breytt. Þessi kostur verður hins vegar metinn ásamt öðrum við leit að langtímalausn á vandanum.

Varðandi komandi vetur munum við leita allra leiða til að draga úr líkum á síldardauða og ég er tilbúinn að beita mér fyrir hvers kyns aðgerðum sem sérfræðingar telja raunhæfar til að afstýra slysi. Nú þegar er unnið að tilraunum og útfærslu á slíkum aðgerðum og ríkisstjórnin hefur gefið vilyrði fyrir fjármögnun þeirra að fengnu áliti þeirra sérfræðinga sem best þekkja til.

Ég taldi rétt að flytja Alþingi skýrslu um stöðu þessara mála þar sem þau hafa verið mjög í umræðunni og varða þjóðarhag jafnt sem hagsmuni íbúa á norðanverðu Snæfellsnesi sem margir eru áhyggjufullir eftir atburði síðasta vetrar. Það er ekki auðvelt verkefni að hindra viðburði af þessu tagi, bæði vegna þess að við skiljum þá ekki til fulls og einnig vegna þess að verkefnið er stórt í sniðum og miklir óvissuþættir tengdir öllum aðgerðum sem miða að lausn. Ég vil hins vegar fullvissa Alþingi og aðra um að við vinnum hörðum höndum að því að bæta skilninginn, efla vöktun og undirbúa aðgerðir sem geta vonandi komið í veg fyrir stórfelldan síldardauða á þessum slóðum í framtíðinni.