143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka fyrir skýrslugjöf hæstv. ráðherra. Það er mikilvægt að þetta mál sé vel vaktað og að menn fari yfir alla þætti þess. Brúin yfir Kolgrafafjörð var mikil samgöngubót þegar hún komst í gagnið og mér finnst mjög skynsamlegt af hæstv. ráðherra að taka á málinu eins og hann er að gera, í rauninni eins og nokkurs konar almannavarnamáli með viðbragðsteymi og tengiliðahóp sem fer yfir það.

En það er annað sem mig langar til að fjalla um í þessu samhengi almennt, vegna þess að við vorum að tala í umhverfis- og samgöngunefnd í gær um súrnun sjávar og að fara yfir þá fjármuni sem við Íslendingar setjum í rannsóknir á hafinu, þeirri miklu matarkistu og auðlind sem við búum yfir hér, og það er því miður ekki nógu mikið. Tvær rannsóknir eru í gangi á súrnun sjávar sem getur haft katastrófískar afleiðingar í för með sér fyrir lífsskilyrði á Íslandi.

Ég vil líka nefna þá atburði þarna sem við þurfum að setja mikla fjármuni í rannsóknir á. Eins þarf að rannsaka til dæmis lundastofninn fyrir sunnan land, hvaða orsakir geta verið fyrir minnkun stofnsins og hvað er í raun að gerast í hafinu sem veldur þessum breytingum á fæðukeðjunni.

Ég hef rétt rennt yfir minnisblað byggt á skýrslu hæstv. ráðherra og í mínum huga, alla vega svona fyrsta kastið, eru tveir möguleikar verri en aðrir; það er að loka firðinum alveg eða þá að taka upp þessa nýju brú og byggja aðra nýja með stærra gegnumstreymissvæði undir. Það eru fulldýrar aðgerðir svona fyrsta kastið. Án þess að ég sé neinn sérfræðingur í þessum efnum held ég að það sé eðlilegra að menn reyni að vakta ástandið og sjá fyrir sér hvað hægt er að gera til þess að koma í veg fyrir þetta, t.d. með einhvers konar girðingarfyrirkomulagi.

Svo vil ég taka undir það sem komið hefur fram í máli sumra ræðumanna, auðvitað er mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að nýta sem mest af þeim verðmætum sem þarna eru á ferðinni.

Hæstv. ráðherra minntist líka á að þetta væri viðkvæmt svæði fyrir haferni og ég get tekið undir það, ég hef sjálfur með eigin augum séð haförn í Kolgrafafirði. Það er nú ekki svo oft sem það kemur fyrir að maður sjái þá stórkostlegu skepnu þannig að það situr í manni þegar það gerist. Það er því vissulega mikilvægt að huga að öðrum lífverum í þessu vistkerfi.

Einnig má nefna að rétt norðan við brúna yfir Kolgrafafjörð er eyri sem Íslendingasagan Eyrbyggja er kennd við, sem segir af Vestari landnámsmanni. Þar segir líka af mjög merkum vígamanni, Steinþóri Þorlákssyni, sem var svo fimur að hann gat brugðið skildi fyrir félaga sinn sem var við það að fá högg á sig, stokkið í loft upp á sama tíma og … (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég tel víst að ég eigi meiri tíma inni hér vegna þess að Björt framtíð átti hérna átta mínútur. (Gripið fram í: Hann verður að fá að ljúka þessu.) Ég verð að fá að ljúka þessari sögu.

(Forseti (ValG): Já, já, setningunni í það minnsta.)

Hann nær sem sagt að koma skildi fyrir félaga sinn, höggva þann sem ætlaði að höggva hann þannig að fóturinn fór af og stökkva í loft upp og forða sér undan spjótslagi. Það er auðvitað með þeim hætti sem hæstv. ráðherra verður að haga sér í þessu máli, hann verður að afsanna það sem stundum er sagt um okkur karlmenn, að við getum ekki gert margt í einu.