143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýrsluna. Hún var mjög greinargóð og það er gott að verið sé að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir svipað ástand og við upplifðum síðastliðinn febrúar. Mér finnst gott að heyra að verið sé að skoða margar lausnir og að rakið sé að málið er auðvitað ekki einfalt og við vitum ekki fyrir víst hvaða áhrif — við erum kannski enn þá svolítið að klóra okkur í höfðinu yfir þessu öllu saman. En það er ljóst að setja verður umtalsverða fjármuni í þetta um leið og greiningunni er lokið, um leið og við höldum að við séum komin á bestu lausnina, það mun kosta einhverjar fjárhæðir að reyna að koma í veg fyrir annað eins og við upplifðum.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar og annarra sem hafa tekið hér til máls og eiga sæti í atvinnuveganefnd höfum við þar fengið inn á borð til okkar frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1998, þess efnis að heimila hærri útgreiðslu úr sjóðnum í eitt ár — þ.e. núna 2013 — til Hafrannsóknastofnunar til þess að hægt sé að rannsaka betur það sem er í gangi þarna. Ég vil taka fram að þetta er einstök aukafjárveiting sem kemur ekki úr ríkissjóði heldur úr svokölluðum síldarrannsóknasjóði. Það er þannig með hann að hann útdeilir vöxtum á hverju ári, en núna erum við að taka aðeins af eigin fé þar og breytum lögum til þess í þetta eina ár. Það var samhljóma álit nefndarmanna að gera það. Ég vona að þeir sérfræðingar sem til þekkja og munu nýta fjármagnið geti með þeim fundið bestu leiðina til þess að koma í veg fyrir álíka atburði og við höfum upplifað.