143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

síldardauðinn í Kolgrafafirði og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málefnalegar umræður og góðar ábendingar og tillögur sem komið hafa fram; og skilning þingmanna á því að við erum að kljást við náttúruna. Ekki er auðséð hvernig við, þó að við höfum sífellt betri þekkingu og tæki, getum tekið á því þegar 100 þús. tonna torfa kemur á fleygiferð, hugsanlega í hræðslukasti undan allt að 220 hvölum, eins og náðist á mynd við Kolgrafafjörð í fyrra. Talið var að alla vega 270 þús. tonn af síld hefðu farið þarna inn og þó að 50 þús. tonn hafi drepist slapp náttúrlega umtalsvert magn út. Sumir hafa talað um að jafnvel hafi verið enn meira magn af síld þarna inni. Sem betur fer er staðan þannig núna, eins og fram hefur komið hjá nokkrum þingmönnum, að veiðar hafa í sjálfu sér gengið frekar illa. Minna er af síld á þessu svæði, suðurhluta Breiðafjarðar og í Kolgrafafirði, hún er ekki þétt. Vöktunin hefur fært okkur þau góðu tíðindi að ekki sé síld í neinum mæli á svæðinu. Það getur auðvitað breyst. Það tengist bæði veðurfari og öðrum þáttum sem spila án efa inn í þetta.

Það er lykilatriði í viðbragðsáætluninni sem ég fór hér yfir að allar leiðir séu gerðar færar til að nýta síldina áður en hún drepst. Það er vandasamt að standa frammi fyrir þeirri ákvörðun hvenær fara eigi að veiða síldina án þess að stofninn skaðist — hvenær fer hún inn og út, súrefnismettunarmælingin á rauntíma er algjört lykilatriði í því. Staðreyndin er sú að náttúrulegur dauði stofnsins er kannski miklu meiri en þessi 50 þús. tonn, enda kom það fram í ráðgjöf Hafró að veiða mætti meiri síld þrátt fyrir þennan síldardauða, stofninn virðist vera í ágætu ástandi eftir erfiða tíma með sýkingu sem er nú að ganga úr stofninum sem betur fer.

Það er mikilvægt að hafa margar tillögur. Ég er hér með á einum fjórum til fimm blöðum mismunandi tillögur og hverjir bera ábyrgð á hverri þeirra — fjármögnun, kostir og gallar. Það er verið að fara yfir þær. Það er mjög mikilvægt. Þegar fyrir liggur að stefnir í tjón þarf að taka ákvörðun um hvernig fyrirbyggja megi það, hvernig við getum nýtt lifandi síld. Ef það mistekst síðan að einhverju leyti og við fáum umtalsvert magn af dauðri síld þarf að ákveða hvernig við nýtum það á sem skynsamlegastan hátt. Það var það sem ég var að nefna þegar ég talaði um að dæla með pramma, það yrði gert eftir að síldin væri dauð til að takmarka urðun, en hugsanlega til þess að geta nýtt hana sem fóður eða áburð eða að sökkva henni í sjó í stað þess að urða hana á landi.

Einnig þarf að velta fyrir sér þverun fjarða. Margt bendir til þess að umhverfismatið, sem gert var á sínum tíma, hafi ekki tekið nægilegt tillit til strauma, menn hafi verið uppteknari af tófum og fuglahreiðrum og öðru slíku; það kom meðal annars fram í máli heimamanna þegar ég heimsótti þá nú fyrir skömmu.

Það sem er þó ánægjulegt, og ætla ég að enda á því, er að ábúendur á Eiði sögðu að eiginlega væri merkilega gott ástand í firðinum. Þau verða hins vegar fyrir því enn þann dag í dag að hreistur kemur fljúgandi á gluggann og byrgir þeim sýn, en ástandið er merkilega gott í firðinum eftir allt það ólán sem gekk yfir í fyrravetur. Við gerum auðvitað allt sem við getum til að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist á nýjan leik.