143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[15:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur upplýst þingið um þá frómu ósk sína að hann telur að réttast væri að fleygja þessu frumvarpi á öskuhauga sögunnar. Ég er sannfærður um að margir í þessum sal gætu vel hugsað sér að taka undir þá ósk hans. Þó veit ég að hæstv. ráðherra er annarrar skoðunar. En við erum í þessari stöðu.

Við búum við það ástand að hæstv. ráðherra ætlar að afturkalla lögin sem mörg okkar töldu að væru merkustu lögin sem samþykkt voru á síðasta þingi. Það er hins vegar langur tími þar til nýju lögin eiga að taka gildi, þ.e. í apríl. Ég velti fyrir mér, miðað við upphafsorð hv. þingmanns, hvort hann teldi það ekki einnar messu virði að kanna hvort hægt væri að ná einhvers konar samkomulagi í þinginu um ágreiningsefnin.

Við vitum að mikið bar á milli hjá núverandi stjórnarandstöðu og stjórnarliðsins á þeim tíma. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að reyna að freista þess að leita málamiðlunar. Mér er það sárt um ýmsar meginreglur og nýmæli sem er að finna í frumvarpinu að ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til þess að ganga töluvert langt til málamiðlunar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann og flokkur hans er við þessar aðstæður reiðubúinn til þess að láta reyna á það hvort hægt væri, ef ráðherrann féllist á það, að ná samkomulagi sem allir gætu þá unað við, þó að hugsanlega ýmsum þætti sem fingur eða hendur væru af þeim sniðnar.