143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að þetta svar hv. þingmanns hafi verið ákaflega mikilvægt. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að reyna eins og kostur er að finna flöt á því að ná samkomulagi um meginreglurnar, en þær eru kannski ekki alveg þær sömu í mínum huga og hv. þingmanns. Ég hef vissulega áhuga á friðlandi fyrir reiðmenn og gangandi vegfarendur og þá sem vilja kynna sér Langanesið. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að vinna gagnagrunn fyrir slóða, leiðir og vegi á hálendinu, en meginreglurnar sem ég er að velta fyrir mér — sem eru þá fyrst og fremst varúðarreglan, greiðslureglan, það að náttúran fái að njóta vafans — skipta mig alveg gríðarlega miklu máli. Sama gildir um nálgun hæstv. fyrrverandi ráðherra varðandi það að nota náttúruminjaskrá sem stjórntæki. Það fannst mér vera mjög mikilvægt nýmæli á sínum tíma.

Ég skal gera þá játningu að á meðan sú umræða gekk yfir var ég að sinna ýmsu öðru og kom kannski ekki nægilega nálægt því máli, en eins og fyrrverandi ráðherra man studdi ég það mjög dyggilega og barðist fyrir því að þetta yrði forgangsmál þeirrar ríkisstjórnar. Ég er þess vegna fyrir mitt leyti til í að leggja mikið á mig. Ég tel að við eigum að nota þessa umræðu til að fá hæstv. ráðherra til að kasta af sér herklæðunum og reyna að sannfæra hann um að við meinum það þegar við segjum að við viljum ræða við hann alvarlega. Hann kom kannski nokkuð vígamóður úr kosningum á sínum tíma og þess vegna nýtti hann ekki tímann, en því tel ég að yfirlýsing hv. þingmanns sé svo mikilvæg, eins og ég sagði hér áðan.