143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu hér, en mig langar að hnykkja á því sem ég hef þegar sagt að ég tel að við eigum að gera það sem við getum til að reyna að finna sátt í þessu máli. Við erum komin í þetta einstigi með mál sem mörg okkar börðust fyrir og töldum að við hefðum unnið ákaflega vel, þ.e. þá stöðu sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti áðan. Hann lýsti því þannig að flokkur hv. þm. Hjálmars Boga Hafliðasonar væri heillum horfinn og vel má taka undir það. Ég tel að hæstv. ráðherra, sem hefur ýmislegt verið vel gefið og stundum hefur maður dáðst að honum þegar hann hefur tekið undir sig brokkið, hafi á þessu stökki lent undir sínum eigin hófum.

Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli leggja það til að þessi lagabálkur sem hér var vandlega undirbúinn um tveggja ára skeið, skuli í einu lagi vera lagður af. Mér finnst það vera vanvirðing við þingið, vanvirðing við það fólk í þinginu og utan þess sem lagði á sig mikla vinnu til þess að hafa samráð við félagasamtök, við hagsmunaaðila og búa til hvítbókina. Samráðshópurinn eða undirbúningshópurinn hóf störf sín á aflíðandi hausti 2009 og tveimur árum síðar, ef ég man rétt, var hvítbókin lögð fram. Þau vinnubrögð voru sannarlega til fyrirmyndar og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir á hrós skilið fyrir það.

Ég gæti vel skilið hæstv. ráðherra ef hann kæmi hér og hefði rök í sínu farteski og vildi benda sérstaklega á þá parta laganna sem hann telur óvinnandi að standi áfram í lögum. Það hefur hæstv. ráðherra ekki gert.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðu sinni áðan að líkast til væru það ekki nema þrjú eða fjögur atriði sem væri virkilegur ágreiningur um. Ég held, frú forseti, ef ég miða við það sem ég les í frumvarpinu og greinargerðinni með því og miðað við það sem hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni í gær, að þetta séu í raun bara tvö atriði. Fyrst og fremst er það sá bálkur laganna sem varðar akstur utan vega. Ég verð að segja að það tel ég að sé einn þarfasti bálkur þessara laga. Ég geri mér grein fyrir því að miklar deilur risu um hann. Ég setti mig töluvert inn í þær deilur á sínum tíma. Á sumum þeim agnúum sem menn leiddu í ljós að virkilega voru til staðar fannst mér að menn fyndu bætur, annars konar gagnrýni var að mörgu leyti ekki á góðum rökum reist, en ég geri mér samt grein fyrir því að þarna er verulegur meiningarmunur. Þetta er annað atriðið.

Hitt er svo það atriði sem varðar færslu á skipulagsvaldi frá sveitarfélögum til ríkisins. Þó má segja að þar sé ekki um annað að ræða en útfærslu og framvinnslu á ákvæðum sem menn ræddu hér mjög lengi um í tengslum við rammaáætlun.

Þegar hæstv. ráðherra flutti framsögu sína í gær fannst mér þau rök sem hann flutti fyrir því að fella lögin öll úr gildi að öllu leyti fánýt. Hæstv. ráðherra sagði m.a. að lögin hefðu þótt einkennast af boðum og bönnum.

Nú er það þannig að náttúruvernd er með mikilvægari lagabálkum sem menn setja. Hún varðar það sem okkur öllum er hugsanlega hvað heilagast, þ.e. náttúruna og þar með þá jörð sem við skiljum eftir handa eftirkomendum okkar. Það er einfaldlega ekki hægt að setja skikk á svo viðkvæman málaflokk án þess að hafa einhvers konar boð eða bönn.

Þá rifja ég það upp þegar lögin sem sett voru 1999 voru í umræðu töluðu menn einnig um boð og bönn. Ég rifja það líka upp að lögin sem voru lögð fram sem frumvarp af fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Eysteini Jónssyni, sem virkilega brutu í blað og eiga líka sinn sess í Íslandssögunni, þóttu einnig fela í sér boð og bönn. Ég minnist þess þegar forveri hans setti sín lög fram og maður getur lesið um í Íslandssögunni, Bjarni Benediktsson á sínum tíma sem var menntamálaráðherra, ég held það hafi verið 1955 eða 1956, þóttu það líka vera boð og bönn. Þá vildi reyndar svo til að afi eins af núverandi þingmönnum, sem var virkur í Sjálfstæðisflokknum og mikill náttúruverndarmaður, braut á bak aftur þá andstöðu. Það hafa alltaf verið ásakanir um það að lögum um náttúruvernd fylgi boð og bönn.

Hæstv. ráðherra nefndi síðan tvennt þegar hann var spurður út í ástæður sínar. Hann sagði að orðskýringar væru óljósar. Þá þótti mér nú taka í hnjúkana þegar haft er í huga að einhver merkasti orðskýringamaður samtíðarinnar, sá sem sannarlega hefur gildastur setið á Alþingi síðustu áratugi, Mörður Árnason, samdi þær. En gott og vel. Hæstv. ráðherra nefndi dæmi. Hann sagði að skýringar á orðinu „ræktarland“ væru ekki nægilega góðar og þær læsu sig með slæmum hætti að hans mati í gegnum frumvarpið. Þetta eru rök.

Í öðru lagi sagði hann að það væru óljós skil, og þá væntanlega valdmörk, millum sveitarfélaga og ríkisstofnana og jafnvel millum ríkisstofnana. Hann nefndi eitt tiltekið dæmi um það. Það eru líka rök. Hvoru tveggja þessara dæma mundi ég skilgreina sem skavanka. Þetta er ekkert sem ekki er hægt að setja niður.

Hinar raunverulegu deilur sem standa hér á millum blokka í þessu máli snúast um akstur utan vega. Ég held að það væri hægt að finna lausnir á því. Þær snúast um færslu á skipulagsvaldi frá sveitarfélögum til ríkisins. Ég er ekki jafn viss um að það sé hægt að finna endilega málamiðlun sem menn gætu allir sætt sig við um það, en ég tel að það eigi að láta á það reyna og kem að því hér á eftir af hverju ég er þeirrar skoðunar.

Ég rifja upp að síðasta kjörtímabil var töluvert frábrugðið fyrri kjörtímabilum. Þar voru stríðsæsingamenn á báða bóga. Það var mikill hiti í öllum og sá hiti stappaði nærri því að kvikna í loga hér undir lok síðasta kjörtímabils, nákvæmlega þegar við vorum að afgreiða þennan lagabálk. Það á sinn þátt í því að tilfinningar eru svo heitar.

Þegar hæstv. ráðherra kemur í sín ráðuneyti sem nýr ráðherra hef ég í sjálfu sér skilning á því að það sé brennt inn í hans hugsun að þarna sé um að ræða mál sem ekki sé hægt að finna neinar sættir eða málamiðlun á. Það er kannski ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra gerði ekki það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að hann hefði átt að gera, nota tímann frá kosningu til þess að kanna það. Ég hefði verið fyllilega sáttur við það að hann sjálfur settist niður t.d. með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, fyrir hönd að minnsta kosti nokkurra flokka í stjórnarandstöðunni, og freistaði þess að ná samkomulagi. Ég studdi það frumvarp sem hv. þingmaður lagði fram sem ráðherra í einu og öllu. Ég hefði sætt mig við þá niðurstöðu.

Þá ber þess auðvitað að geta að ég er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum í dag. Ég hef ekki vald til að fylgja fram mínum vilja nema reyna að færa rök fyrir mínu máli. En þá hugsa ég til þess að hér erum við stödd á útlíðandi nóvember. Lög þessi sem eru svo umdeild eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. apríl. Það eru allnokkrir mánuðir til þess að láta á þetta reyna. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera. Ég segi eins og ég sagði í andsvörum fyrr í dag að ég vil bíta í það gallsúra epli að láta af höndum eitthvað af því sem ég tel vera mjög mikilvægt til að halda inni prinsippatriðunum. Þessi prinsippatriði fyrir mér eru nokkur. Það sem skiptir mestu máli er það sem við höfum í gegnum árin kallað meginreglur umhverfisréttarins. Þar er tvennt; það er varúðarreglan og það er greiðslureglan sem við á sælum umhverfisráðherradögum mínum kölluðum reyndar mengunarbótaregluna.

Það er rétt að rifja upp að þegar menn ýta á eftir því að þetta verði tekið upp í íslenskan rétt er ekki eins og þeir séu að biðja um að íslensk lög verði gerð að einhvers konar framúrstefnulögum. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað sem aðrar þjóðir sem við gjarnan berum okkur saman við hafi ekki fyrir löngu tekið upp í sinn rétt. Við erum orðin eftirbátar annarra landa hvað þetta varðar.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að varúðarreglan setur ákveðna tálma á framkvæmdavilja, framkvæmdagleði og framkvæmdahraða ef um er að ræða framkvæmdir sem ekki hafa verið rannsakaðar nægilega vel. Það má útskýra varúðarregluna með ýmsum hætti. Einn er sá að náttúran eigi að njóta vafans. Tæknilegri útfærsla felur í sér að ekki á að láta skort á gögnum um afleiðingar framkvæmda leiða til þess að þær séu heimilar. Með öðrum orðum, það er sett rannsóknarskylda á stjórnvaldið. Ég tel það eðlilegt.

Í mínum flokki mundi ég vera flokkaður í hópi nýtingarsinna. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að nýta náttúruna, en ég er jafnharðan þeirrar skoðunar að það eigi að láta náttúruna njóta vafans. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að sá sem mengar eigi að greiða fyrir það með einhverjum hætti.

Þetta tvennt er fyrir mér mikilvægustu reglurnar og það mikilvægasta sem í lögunum er að finna. Upp á það að reyna að halda þessu inni er ég reiðubúinn til að gera málamiðlanir. Það er vel hugsanlegt að fara þá leið, ef það er vilji fyrir því, að ákveðnir hlutar í þessum lagabálki taki gildi, aðrir ekki ef ekki um semst.

Þá rifja ég það upp að ég sem umhverfisráðherra lagði fram lög um varúðarreglu og mengunarbótareglu 1994 sem ekki náðu fram að ganga vegna samstarfsflokksins, ekki vegna Framsóknarflokksins. Rétt er að tengja við það og ágætt fyrir þann mann hér sem nýsestur er í salinn, sem telur sérstaklega að sér veist þegar Framsóknarflokknum er álasað, að þeim flokki er heldur ekki alls varnað í þessum efnum. Það var umhverfisráðherra Framsóknarflokksins sem árið 1996 lagði fram um þessi mál lagafrumvarp sem ekki náði fram að ganga, og ekki heldur náðu skýr ákvæði um varúðarregluna fram að ganga 1999. Ég segi ærlega: Þessu vil ég ná fram.

Í annan stað stend ég föstum fótum í hinu forna bændasamfélagi hvað varðar almannarétt og finnst að ég sé þá að minnsta kosti kominn með aðra löppina yfir á hólma Framsóknarflokksins. Árið 1999 var lögum breytt með ákaflega óheillavænlegum hætti, að mínu viti. Þá var settur í lögin tálmi á almannarétti. Mjög ríkur almannaréttur hefur alltaf fylgt okkur frá þjóðveldisöld. Þeir menn í salnum sem þekkja til fornra lagabóka geta staðfest það að hinar fornu bækur eins og Grágás og Jónsbók hafa ítarleg ákvæði, heila bálka, um almannarétt. Þar kemur fram að mönnum er frjáls för og ekki bara það, þeir mega nytja landið á meðan þeir eru á ferðalaginu. Þeir mega lesa ber, gott ef þeir mega ekki líka veiða fisk úr vötnum á meðan þeir ferðast yfir landið. Það er töluverð göfgi yfir þessu.

Árið 1999 var þessu breytt þannig að ekki mátti fara yfir óræktað land ef það var afgirt. Þetta er meginbreyting. Ég er ofboðslega mikið á móti þessu. Þetta er frávik frá hefðum bændasamfélagsins, sprottið frá árunum í kringum 1970 þegar nýr hópur landeigenda varð til. Borgarbörnin fjárfestu í jörðum og landnæði, girtu það og litu á sem framlengingu af garðinum sínum. Þetta þrennt er fyrir mér mjög mikilvægt.

Ég vildi gjarnan beina því til hæstv. ráðherra sem spurningu, miðað við hversu langur tími er til stefnu, þ.e. fram til 1. apríl, hvort hann telji ekki í anda eigin yfirlýsinga við stjórnarmyndunina og sinna manna þegar þeir töluðu um áherslu á sátt, á samráð og samvinnu — ég tel að stjórnarandstaðan hafi fyrir sitt leyti til þessa tekið undir það — hvort hann telji það ekki einnar messu virði eins og París forðum að láta á það reyna?