143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:28]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að deila með okkur af reynslu sinni og innsæi í þessum efnum. Ég neita því ekki að eftir að hafa verið í þingsölum ekki lengur en eitt kjörtímabil, og þá á ráðherrabekknum allan tímann, er ég nokkuð hugsi yfir þessu máli og hvernig það ber að. Þrátt fyrir að hafa setið í þingsal í gær og hlustað á bæði framsögu hæstv. ráðherra og umræðuna finnst mér enn standa yfir leitin að tilefninu sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að fara fram með svona miklum þunga og svo miklu offorsi að slá af lög sem eiga sér þennan langa og mikla aðdraganda, allt frá haustinu 2009. Við erum í raun að tala um fjögurra ára samfellda vinnu sem ráðherrann ætlar að henda til hliðar og afturkalla.

Þingmaðurinn fór yfir þrenns konar athugasemdir sem hafa komið fram í máli ráðherrans á ýmsum stigum; í framsögunni, greinargerðinni með frumvarpinu, fjölmiðlum og víðar. Það eru í fyrsta lagi orðskýringar og minni háttar mál, núningsfletir og hlutir sem hægt er að laga með því að nýta tímann vel. Í öðru lagi eru stærri þættir sem eru kannski í heilum köflum laganna, eins og akstur utan vega. Svo er það sálin í lögunum, stóru atriðin, styrking ákvæðanna um sérstaka vernd, varúðarreglan, greiðslureglan o.s.frv.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hafi af reynslu sinni, yfirsýn og þekkingu á því hvernig málin skipast í þingsal fundið út hvert tilefni ráðherrans sé.