143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[16:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að taka þátt í þessari umræðu nú. Ég átti þess kost að vera hér síðustu daga þingsins fyrir kosningar og kom inn í þetta mál á lokasprettinum og man þar af leiðandi svolítið hvernig hitinn var og eldglæringarnar sem hv. þingmaður lýsti ágætlega í ræðu sinni.

Ég sat líka fund á Akureyri með Ferðaklúbbnum 4x4 ásamt Ólafi Þór Gunnarssyni sem þá sat á þingi og leiddi þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd með fleirum. Af því að óánægjuraddir höfði verið svo háværar kom það mér í rauninni ánægjulega á óvart hvernig þessi hagsmunasamtök tjáðu sig á fundinum og voru í heildina nokkuð sátt við frumvarpið og það sem hefur verið mikið rætt hér, þ.e. akstur utan vega. Eins og kom meðal annars fram hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur í gær og eflaust fleirum vilja auðvitað flestir fara eftir þessum reglum. Það eru svartir sauðir alls staðar sem skemma alltaf fyrir hinum.

Ég eins og aðrir hef áhyggjur af því af hverju ákveðið er að leggja hér fram afturköllun á lögunum í heild sinni í stað þess að fara í þá vinnu að lagfæra það sem stjórnarmeirihlutanum finnst þurfa að lagfæra. Ég hef íhugað: Getur verið að það sé ekki meiri hluti innan stjórnarmeirihlutans fyrir því að lagfæra þá agnúa sem þeir telja vera á þessum lögum? Af hverju þarf að afturkalla lögin í heild sinni? Hvað finnst hv. þingmanni um þessar fílósóferingar mínar? Telur hann líka að með einhverjum hætti sé hægt að ná málamiðlun eins og hæstv. ráðherrann kom inn á að þyrfti að gera, þ.e. (Forseti hringir.) að ná víðtækri sátt umfram það sem nú þegar hefur verið gert?