143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ágætis ræðu. Við erum um margt sammála og ég vil sérstaklega taka undir þau orð, eins og ég skildi hann hér í lokin, um að jafnvel þeir sem hefðu verið á móti frumvarpinu og skilað neikvæðri umsögn þýddi ekki endilega að þeir væru á móti því að við mundum setja heildstæða löggjöf um náttúruvernd. Mér fannst það ágætt að hann minntist á utanvegaaksturinn, hann minntist á málefni bænda og landeigenda og ég held að þar liggi hundurinn grafinn.

Mér fannst reyndar líka ágæt umfjöllunin um sátt. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að sátt má aldrei felast í því að annar aðilinn kalli það sátt þegar allt fer á þann veg sem hann vill. Ég hef lagt mig fram um það í umhverfis- og samgöngunefnd að við reynum sem heildstæð nefnd að vinna saman að úrlausn verkefna. Við höfum tekið fyrir ýmis brýn og stór mál, fengið bæði fræðslu og umfjöllun og reynt svo að átta okkur á því hvar ágreiningurinn liggur. Það er kannski aðalatriðið í þeirri vinnu sem nú er fram undan, sem ég vona að verði vönduð og ítarleg, að við reynum að átta okkur á því nákvæmlega um hvað við erum sammála og hvar ágreiningurinn eða mörkin liggja. Við höfum ágætis tíma, það er öflugt fólk í nefndinni frá öllum stjórnmálaflokkum og ég bind miklar vonir við að sú vinna geti orðið þingi og þjóð til framdráttar.