143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að menn reyni að vinna þetta mál til sátta og niðurstöðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fara skipulega yfir það sem átti að vera helsti ávinningur náttúruverndarlaganna, þ.e. annars vegar að skýra og skerpa markmiðin og hins vegar að setja sérstök verndarmarkmið. Ég get ekki heyrt annað en að komið hafi fram í umræðu frá stjórnarliðum að þeir styðji það markmið og það kom líka fram í nefndaráliti.

Einnig er rætt um meginreglurnar, um umhverfisréttinn, þ.e. varúðarregluna og greiðsluregluna. Ég hef ekki heyrt andstöðu við þessi grundvallarsjónarmið þó að menn hafi ólíkar skoðanir um hvernig eigi að túlka þau. Það er verið að tala um almannaréttinn, þ.e. rétt fólks til þess að ganga um landið og nýta sér almenninga, þjóðlendur og óræktuð svæði eftir ákveðnum reglum. Það kann að vera ágreiningur þar. Mér heyrist vera ágreiningur um skilgreiningar þar og er þá full ástæða til þess að fara yfir það í nefndinni.

Við erum búin að ræða hér akstur utan vega, um mikilvægi þess að setja reglur um það. Það var svo sem búið að setja það í ákveðinn farveg að leita sátta í því máli og gefa því lengri tíma þannig að ekki þyrfti að fresta lögunum út af því. Talað er um öfluga náttúruminjaskrá, að skilgreina verndarsvæði og gefa skýrari skilaboð um hvað náttúruvætti eru og hvað skuli verja hvað sem á dynur. Ég held að það skipti líka miklu máli að við reynum að búa til umhverfi sem þýðir það að menn geti farið í framkvæmdir eða unnið í atvinnulífi án þess að endalausar deilur séu um það. Það höfum við upplifað, við vorum að reyna að ná utan um þetta annars vegar með rammaáætluninni og hins vegar með náttúruverndarlögunum. Ég held að við eigum að hafa það markmið áfram að reyna að skýra réttindi með lögunum þannig að menn viti að hverju þeir ganga. Ég held að flestir hafi kallað eftir því.

Síðan hefur auðvitað verið (Forseti hringir.) skoðað varðandi framandi lífverur þar sem einhver ágreiningur er um hvernig á að skilgreina þær, en hægt að skoða það betur í nefndinni.