143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til þess að byrja á því að spyrja eftir ráðherranum og hvar hann sé niður kominn. Ég held að full ástæða sé til að hann sýni okkur þann heiður að vera viðstaddur umræðuna þar sem um slíkt stórmál er að ræða af hans hendi að hann ætlaði einhendis að afnema lögin. Ég bið forseta að kanna með veru ráðherra í þingsalnum, ég nefni nú ekki formann hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem væri líka ágætt að hafa hér.

Hv. þingmaður fór svolítið yfir pólitísku stöðuna í þessu máli, þ.e. í samhengi við þróun stjórnmálanna almennt og við hv. þingmaður deilum áhuga á þeim málum. Það er rétt sem kemur fram í máli hennar að það eru auknar áherslur almennt í stjórnmálum heimsins á græn sjónarmið og á græn mál. Við höfum fundið fyrir því og fundum vel fyrir því á síðasta kjörtímabili að hljómgrunnur var fyrir því að leggja meiri áherslu á græna pólitík og græna forgangsröðun.

Lengst af hefur það verið þannig á Íslandi að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svolítið einangraður í því að vera andnáttúruverndarflokkurinn. Þó hefur alltaf verið einn og einn þar sem hefur á íhaldssömum grunni lagt áherslu á græn sjónarmið, en enginn kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins talar þannig núna, enginn. Svoleiðis fólk er ekki til.

Lengst af hefur það líka verið þannig að leynst hefur einn og einn framsóknarmaður einhvers staðar sem hefur talað fyrir náttúruvernd, en núna horfum upp á ríkisstjórn þar sem Framsóknarflokkurinn gengur eiginlega lengra en Sjálfstæðisflokkurinn í þeim efnum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún sér þetta, hvort við séum að horfast í augu við ákveðna „pólaríseringu“ (Forseti hringir.) hvað varðar nákvæmlega þá þætti í stjórnmálum hér á Íslandi sem er kannski andstætt því sem við sjáum víða í löndunum í kringum okkur.