143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[17:42]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það, eins og ég sagði áðan, verulega mikið umhugsunarefni hvernig þessi mál eru að þróast hér á landi, það er á skjön við það sem almennt gerist þar sem þessi mál fá sífellt meiri þunga. En ég verð að segja og það í fúlustu alvöru úr ræðustól Alþingis: Ég vænti þess að það sé ekki endilega einhugur í þingflokkum stjórnarflokkanna sem eru skipaðir ungu fólki mikið til, og vísa ég þá sérstaklega í þingflokk Framsóknarflokksins, þ.e. að hljómgrunnur sé fyrir svona kollsteypunálgun. Fólk sem fer með eld í hjarta inn í þingið og langar til að vinna á nýjan og faglegan máta — ég held að það geti ekki verið stemning fyrir því að gera hlutina akkúrat svona. Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum hv. formanns nefndarinnar sem hefur boðað að farið verði mjög djúpt í þessa vinnu og mikið samráð.