143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir efnismikla og góða ræðu.

Það er atriði í greinargerð með því frumvarpi sem við ræðum hér sem ég vil aðeins fá hennar mat á. Hæstv. umhverfisráðherra ætlar nú að fella brott nýsett lög Alþingis um náttúruvernd sem byggja á mjög vandaðri og umfangsmikilli vinnu sem ég ásamt fleiri þingmönnum hef farið yfir hér í ræðustól. Í greinargerð með frumvarpinu er ekki mikið vitnað í þá vinnu en sagt að það sé tímafrek vinna að endurskoða lögin og að lagabálkurinn sé flókinn og viðamikill. Svo segir og veldur mér áhyggjum, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að nýtt frumvarp muni samt sem áður að einhverju leyti byggja á þeirri miklu vinnu sem unnin hefur verið á vegum umhverfisráðuneytisins við endurskoðun löggjafar um náttúruvernd.“

Hér finnst mér nánast um öfugmæli að ræða því að ekkert frumvarp, vil ég fullyrða, á síðasta kjörtímabili var jafnítarlega undirbúið og þetta með þeirri 477 blaðsíðna hvítbók sem fyrst var unnin og síðan var smíðað lagafrumvarp á þeim grundvelli.

Hvernig túlkar hv. þingmaður þessi orð í greinargerðinni? Telur hún að það eigi í raun og veru að byggja á þeim lögum sem við samþykktum hér í vor og þeirri vinnu sem á undan fór (Forseti hringir.) eða gefa þessi orð vísbendingar um annað?