143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni og beindi spurningum til hæstv. ráðherra þá er akkúrat áhyggjuefni hver eigi að njóta vafans. Af hverju þarf að henda öllu saman og byrja upp á nýtt nánast? Af hverju er ekki hægt að taka bara upp þær greinar sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin telja að þurfi að breyta? Ég trúi því ekki að það þurfi að taka nánast hverja einustu grein og fara yfir hana. Ég hef miklar áhyggjur af því, eins og ég lauk málinu á hér áðan, að það verði ekki náttúran sem njóti vafans heldur verði það nýting á landinu.

Ég get sagt það hér og er búin að segja það oft að í ljósi allrar þeirra vinnu sem fram fór, eins viðamikil og hún var og kom ábyggilega fram í máli hv. þingmanns sem spurði mig áðan, er ákveðin óvirðing í því fólgin að setja málið svona út af borðinu og ætla í rauninni þingnefndinni, þrátt fyrir að þar sé auðvitað nýtt fólk, að vinna þetta aftur frá grunni. Það er eins og ýta þurfi því sem frá ríkisstjórninni fyrrverandi kom út af borðinu því að ekkert sé nógu gott og það þurfi að byrja á núllpunkti. Mér finnst þetta líka vera ákveðin sóun á tíma nefndarmanna og tel áhyggjuefni að þetta sé undirliggjandi ástæða fyrir þessari ákvörðun. Það er auðvitað áhyggjuefni og vert að spyrja þingmenn stjórnarflokkanna líka eftir því hvort þeir treysti sér til þess að segja að þeir standi með góðu frumvarpi um náttúruvernd á kjörtímabilinu.