143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil koma aðeins inn á það sem þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni um varúðarregluna. Ég vil fara svolítið yfir sérstöku verndina sem varðar eldvörp, eldhraun, vötn og tjarnir, mýrar og flóa, fossa, hveri, sjávarfitjar og leirur. Um sérstöku verndina er getið í 37. gr. laganna frá 1999 en er núna að finna í 57. gr. Í gömlu lögunum, þeim lögum sem enn eru í gildi en eiga að falla úr gildi í apríl þegar nýju lögin taka gildi, segir um þessi svæði að forðast skuli röskun þeirra eins og kostur er. Því hefur verið haldið fram með réttu að þetta veiti ekki næga vernd.

Komum við þá að því sem þingmaðurinn hefur verið að tala um, að ívilna eigi framkvæmdahliðinni á kostnað verndarhliðarinnar. Nú eru allir þingmenn í þessum sal sammála um að framkvæmdir geta verið af hinu góða og að mikilvægt sé að við förum í allra handa framkvæmdir. Samkvæmt nýju lögunum á að vera óheimilt að raska svæðum sem eru í sérstakri vernd nema brýna nauðsyn beri til og sýnt þyki að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi. Það er ekki einu sinni útilokað og verndað að fullu í lagagreininni heldur eru lagðar ríkari kröfur á þá sem vilja framkvæma að leita allra leiða til þess að það sé gert í sátt við náttúru og umhverfi.

Er hv. þingmaður sammála því mati mínu að það sé kannski ein af orsökum þess að þetta er lagt fram að ráðherra er andsnúinn þessari auknu vernd (Forseti hringir.) þó að hann treysti sér ekki til að segja það í greinargerð?