143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún vitnaði talsvert í reynslu sína af sveitarstjórnarstiginu. Ég vil gera það að umtalsefni hér í ljósi þess að það sem í raun og veru má kalla nýmæli í lögunum er hvernig staðið er að náttúruminjaskrá, þ.e. hvernig staðið er að undirbúningi náttúruminjaskrár. Það er talsverður ferill sem lýtur sérstaklega að C-hlutanum og snýr að því hvernig hann er undirbúinn. Þar hafa sveitarfélögin verulegu hlutverki að gegna þar sem leita þarf umsagnar sveitarstjórna, náttúruverndarnefnda og náttúrustofa. Enn fremur er reiknað með því að sveitarfélög geti haft áhrif á hvað fer inn á þessa skrá með því að gefa ábendingar þar um. Síðan þegar kemur að 68. gr. frumvarpsins, XII. kafla, er farið yfir skipulagsáætlanir. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár sé bindandi við gerð skipulagsáætlunar. Ég reikna með að það sé það sem hv. þingmaður hafi verið að vitna til áðan þegar hún ræddi um skipulagsvaldið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann því að hún sagði hér áðan að ábyrg sveitarfélög ættu að vera stolt af því að sinna náttúruvernd og slíku og ættu að taka þátt í því ferli: Telur hún að það séu einhver sóknarfæri í þeirri uppbyggingu sem þarna er lýst? Þótt skipulagsáætlanir skuli miðast við náttúruminjaskrá er um leið gert ráð fyrir talsverðri aðkomu sveitarfélaga að því hvernig þær eru undirbúnar. Eru jafnvel einhver sóknarfæri í þessu fyrir sveitarfélögin?