143. löggjafarþing — 25. fundur,  19. nóv. 2013.

náttúruvernd.

167. mál
[18:54]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er samvinna sem þarf að eiga sér stað á milli þeirra sem hafa í rauninni eignarhaldið, skipulagsvaldið og framkvæmdarvaldið.

Við höfum verið að friðlýsa. Árið 2008 voru til dæmis ákveðin svæði í Hafnarfirði friðlýst en okkur langar að gera betur, vernda svæðin betur, merkja þau betur og vera með kort og skilti og annað sem sýnir í rauninni hvaða náttúruminjar eru þar til staðar. Þetta er náttúrlega verkefni sem þarf að vinna til dæmis með ríkisvaldinu af því að ég mundi halda að það væri til mikilla bóta fyrir alla íbúa í landinu að samræmi væri á milli náttúruminjaskrár og friðlýstra svæða, samræmdar merkingar og samræmt upplýsingagildi í því sem kæmi þar fram.

Auðvitað þarf mikil samvinna að eiga sér stað. Ég hef alla vega upplifað það þegar ég hef lesið um þau lög sem áttu að taka gildi á næsta ári, að þau eru mjög góð. Þau ramma inn þetta samstarf. Þau ramma líka inn þær leiðir og þau markmið sem á að viðhafa í náttúruvernd hvort sem það er af hálfu ríkisins eða sveitarfélaga.