143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

störf fjárlaganefndar.

[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það að þetta er ekki allt eins og þetta ætti helst að vera, þetta er ekki allt eins og ég hefði helst viljað hafa það; og það er svo sem ekkert nýtt. Ég get nefnt að á undanförnum árum hafa tekjuöflunarfrumvörpin komið mjög seint hingað inn á þingið og við gerðum athugasemdir við það. Og fjáraukinn er of seint á ferðinni miðað við það sem að var stefnt. En ég hyggst leggja fjáraukalagafrumvarpið fyrir ríkisstjórn á föstudaginn og ég vænti þess að því verði dreift á dögunum þar á eftir eftir meðferð í stjórnarflokkunum. Það er því einungis dagaspursmál hvenær fjáraukalagafrumvarpið mun liggja fyrir hér þinginu. Ég vonast síðan til þess að geta mælt fyrir því á fyrsta þingdegi í næstu viku.

Varðandi fjáraukann að öðru leyti, og samhengi við fjárlagafrumvarpið og vinnuna sem er í fjárlaganefnd, er ég ekki sammála því að það að fjáraukalagafrumvarpið sé ekki komið fram stöðvi vinnu við fjárlög næsta árs. Í sjálfu sér er óheppilegt að fjárlög séu tekin til afgreiðslu áður en fjáraukinn hefur verið kláraður en þess eru þó dæmi í fortíðinni að fjáraukalagafrumvarp hafi ekki verið afgreitt fyrr en eftir að fjárlög næsta árs voru kláruð. Það eru ekki það stórar breytur í fjáraukanum að það eigi að valda miklum forsendubresti fyrir áframhaldandi vinnu við fjárlög.

En þá komum við að hugmyndum til breytinga fyrir 2. umr. fjárlaga. Að venju verður það samstarfsverkefni meiri hluta nefndarinnar og vonandi nefndarinnar allrar og ráðuneytanna, og þá sérstaklega samstarfsverkefni milli fjármálaráðuneytisins og nefndarinnar, að koma því frumvarpi saman. Þess má vænta að á næstu dögum(Forseti hringir.) fæðist þær tillögur þannig að við getum vonandi haldið áætlun í þeim efnum. En ef það er ekki raunhæft verður þingið að ráða því.