143. löggjafarþing — 26. fundur,  20. nóv. 2013.

nauðungarsölur og dómur Evrópudómstólsins.

[15:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það. Með mikilli virðingu fyrir hv. þingmanni er þetta í þriðja sinn sem ég svara þessari sömu fyrirspurn hér á þingi. (JÞÓ: Ekki rétt.) Þetta er í þriðja sinn sem þessi umræða kemur upp, þetta er önnur fyrirspurnin og málið hefur líka verið tekið upp í sérstökum umræðum á þinginu.

Ég hvet þingmanninn, ef ég mætti hafa orðið, hv. þingmaður, til að flytja um þetta frumvarp. Ef hann vill að þingið blandi sér með þessum hætti í málið þá hvet ég hann til að beita áhrifum sínum hér sem þingmaður. Ég hef mörgum sinnum sagt og get ítrekað það, sá dómur sem vitnað er í hér í þriðja sinn í umræðum á þingi og ég er í þriðja sinn að svara er ekki talinn hafa fordæmisgildi fyrir Ísland. Vilji þingmaðurinn fara í mál eða taka löggjafann lengra í því máli verður hann að leggja þá tillögu fyrir þingið. Innanríkisráðherra getur ekki tekið sér slíkt vald. (JÞÓ: Hann hefur …) Hann hefur það ekki. Það er rangt hjá þingmanninum vegna þess að dómurinn sem vitnað er í aftur og aftur er ekki talinn hafa þá stöðu hér á Íslandi svo að ég ítreki það. Ég er búin að segja það líka þrisvar. Sé þingmaðurinn ekki sammála mér getur hann beitt völdum sínum hér á þinginu og tryggt það að löggjafinn komi innanríkisráðherra á annan stað. Það er vald þingmannsins. Í stað þess að spyrja og þráspyrja þrisvar um sama hlutinn hvet ég virðulegan þingmann til að taka málið á næsta stað og fela þá löggjafanum að taka um það ákvörðun hvort beita eigi þessu með öðrum hætti.

Ég er líka búin að svara því í þrígang, ef ekki oftar, sama þingmanni, að samhliða því sem tillögur um skuldamál heimilanna verða fluttar á þingi, sem líður nú senn að, verður tekin ákvörðun um það og flutt um það tillaga hvort fresta eigi um ákveðinn tíma fullnustu á reglum er gilda um nauðungarsölur. Þessu er ég líka búin að svara í þrígang.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, virðulegur forseti, það er ekki talið að sá dómur sem þingmaðurinn vitnar hér ítrekað til hafi það gildi sem þingmaðurinn telur hann hafa fyrir íslenskt samfélag. Þá vitna ég aftur til þess og hvet hv. þingmann að nýta það afl sem hann hefur sem þingmaður í staðinn fyrir að spyrja sama ráðherrann aftur og aftur um sama málið og fá þá löggjafann með sér á þann stað til að innanríkisráðherra (Forseti hringir.) sé gert það kleift að gera hlutina sem innanríkisráðherra er ekki kleift að gera í dag.